Lífið

Leita að vítaskyttu Íslands fjórða árið í röð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá keppninni fyrir ári.
Frá keppninni fyrir ári.
Á sunnudag fer fram hin árlega vítaspyrnukeppni og verður vítaskytta ársins krýnd. Keppnin er haldin á vegum vefsíðunnar Fótbolti.net en þetta er fjórða árið í röð sem keppnin er haldin.

Hún hefst á Eimskipsvellinum (Þróttarvelli) klukkan 16:30 á sunnudag en klukkan 18:45 fer fram landsleikur Íslands og Króatíu í Laugardalnum. Áætlað er að vítakeppninni ljúki tímanlega fyrir landsleikinn.

Skráning í keppnina fer fram á Þróttarvelli og hefst hún klukkan 16:00 á sunnudag. Þátttökugjald í vítaspyrnukeppninni er 1000 krónur en allur ágóði rennur í ferð fyrir Vildarbörn Icelandair. Vildabörn Icelandair eru sameiginlegt átak Icelandair og viðskiptavina til stuðnings veikum börnum og fjölskyldum þeirra.

Sigurvegarinn í keppninni fær gjafabréf frá Icelandair en um er að ræða flugmiða fyrir tvo til Evrópu. Þá fær sigurvegarinn gjafabréf frá adidas og úr frá 24 Iceland. Þrír efstu þátttakendurnir fá allir bolta frá adidas.

Öllum er frjálst að taka þátt í keppninni en í fyrra tóku um það bil 300 manns á öllum aldri þátt.

Keppt verður á fjögur mörk til að byrja með til að keppnin gangi hraðar. Þegar nær dregur úrslitum verður síðan keppt á eitt mark.

Öflugir markverðir standa vaktina í keppninni en þegar styttist í úrslitastund kemur fyrrum landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson í markið. Þannig sitja allir þátttakendurnir í úrslitunum við sama borð.

Hér má skoða Facebook-viðburðinn um hópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×