Íslenski boltinn

Sveinbjörn skaut Þrótti á toppinn | Már hetja ÍR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinbjörn var hetja Þróttara í Kórnum.
Sveinbjörn var hetja Þróttara í Kórnum. vísir/anton
Mark Sveinbjörns Jónassonar úr vítaspyrnu skaut Þrótti á topp Inkasso-deildarinnar í kvöld.

Þróttarar sóttu þá HK-inga heim í Kórinn og fóru með 0-1 sigur af hólmi.

Þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik braut Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, á Hlyni Haukssyni innan teigs og Sigurður Óli Þórleifsson dæmdi víti. Sveinbjörn fór á punktinn og skoraði.

Það reyndist vera sigurmark leiksins og Þróttarar fögnuðu stigunum þremur. Á 81. mínútu fékk HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson að líta rauða spjaldið.

Með sigrinum skaust Þróttur á topp deildarinnar en Fylkir getur endurheimt toppsætið með sigri á Leikni F. á laugardaginn.

HK, sem hefur tapað þremur leikjum í röð, er í 8. sæti deildarinnar með sex stig.

Már Viðarsson var hetja ÍR þegar liðið mætti Gróttu á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi. Lokatölur 1-2, ÍR í vil.

Þetta var annar sigur Breiðhyltinga í röð en þeir eru komnir upp í 6. sæti deildarinnar. Grótta er því ellefta og næstneðsta.

Már kom ÍR yfir á 23. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Aleksandar Alexander Kostic metin með skoti beint úr aukaspyrnu.

Á lokamínútu skoraði Már svo öðru sinni og tryggði ÍR-ingum sigurinn.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×