Skoðun

Hvar er metnaðurinn?

Guðmundur Hreinsson skrifar
Við lásum á mbl.is, þann 18. maí sl., þær hugmyndir Samtaka iðnaðarins að stytta iðnnám niður í þrjú ár. Rökin voru sú að núna væri búið að stytta stúdentspróf niður í þrjú ár og þess vegna gæti það veikt samkeppnisstöðu iðnnáms.

Rök SI fyrir þessum hugmyndum eru vægast sagt byggðar á veikum grunni. Í fyrsta lagi þá eru engar rökstuddar greiningar sem liggja á bak við þessar hugmyndir því nám á að vera byggt á faglegu mati en ekki á einhverjum samkeppnissjónarmiðum. Það vantar spyrja spurninga eins og; hvaða þjóðir viljum bera okkur saman við, hvernig iðnaðarmenn erum við að útskrifa og hvernig iðnaðarmenn munum við útskrifa eftir slíkar breytingar?

Þá er ekki hægt að leggja stúdentspróf og iðnnám að jöfnu því eðli iðngreina og stúdentsprófs er gjörólíkt, stúdentspróf er áfangi að einhverri starfsmenntun á háskólastigi en iðnám veitir strax réttindi til starfsréttinda sem í flestum tilvikum veitir fólki sömu afkomu og þeim sem hafa starfsmenntun á háskólastigi. Iðnnám er því alltaf hagkvæmara fyrir þjóðfélagið þar sem það er styttra en starfsnám á háskólastigi.

Við í stjórn Verkmennt, sem er félag kennara í byggingagreinum, höfðum ekkert heyrt af þessum áformum fyrr en það birtist í fréttum. Halda mætti að undir eðlilegum kringumstæðum þá væru kennarar í starfsgreinum lykilfólk í framkvæmd sem þessari ef til kæmi og væru þar af leiðandi hafðir með í umræðunni frá fyrstu stigum. Í hugmyndafræði breytingastjórnunar þá er það talið grundvallaratriði að hafa alla með frá upphafi, síðast en ekki síst þá sem hafa mest með breytingar að gera.

Námskrá í byggingagreinum

Árið 2009, þegar Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra, var auglýstur styrkur hjá ráðuneytinu vegna endurskoðunar á námskrá ýmissa greina. Ný aðalnámskrá framhaldsskólanna hafði þá nýlega litið dagsins ljós og nauðsynlegt var að uppfæra og endurskoða hinar ýmsu námskrár í ljósi þess.

Tveir kennarar úr Tækniskólanum ásamt kennurum frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Fjölbrautaskólanum á Akranesi fengu styrk frá ráðuneytinu og var falið að fara í endurskoðun á námskránni fyrir byggingagreinar. Þarna voru samankomnir reynslumestu menn í þessum greinum að kannski undirrituðum undanskildum og vel í stakk búnir að takast á við þetta mikla verkefni. Nefndin komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að hyggilegast væri að breyta því sem nauðsynlegt væri að breyta og halda því sem gott væri í gömlu námskránni.

Námskráin gamla hafði marga góða kosti og þá sérstaklega hvað varðar innihald og uppbyggingu áfanga. Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að íslenskir iðnaðarmenn hafa verði mjög vinsælir víða um lönd vegna fjölhæfni þeirra og var það mat nefndarinnar að það væri að mörgu leyti vegna þess hvernig námið væri uppbyggt og ekki ætti að eyðileggja það sem gott væri.

Niðurstaða nefndarinnar var einnig sú að fyrirkomulag og skipulagning á vinnustaðanámi væri ómarkvisst og það væri ekki í takt við nútímann að segja við nemendur þegar kæmi að starfsþjálfun og vinnustaðanámi að þeir þyrftu að sjá um sig sjálfir og færi það eftir frændsemi og kunningsskap hvort nemendur kæmust á samning eða ekki. Skólinn þyrfti að gæta jafnræðis og lofa öllum nemendum sem teknir væru inn í skólana að útskrifast og skólarnir tækju ábyrgð á því að nemendur gætu útskrifast.

Til þess að nálgast þetta vandamál, kynnti nefndin fyrir sér fyrirkomulag í nágrannalöndum okkar og var haldið til Danmerkur til að skoða hvernig uppbyggingin á náminu væri þar. Eftir ferðina komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag vinnustaðanáms eins og það tíðkast í Danmörku væri góður kostur fyrir Íslendinga með einhverjum frávikum. Haldinn var fundur með starfsgreinaráði, 2010, og þeim kynnt niðurstaðan og á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar lagði starfsgreinaráð í byggingagreinum til að nefndin héldi áfram og færi í heildar endurskoðun á námskránni.

Eins og áður kom fram þá var lögð áhersla á að koma böndum á vinnustaðanámið og gera það markvissara. Til þess að ná því markmiði þá var lagt til að vinnustaðanámið yrði skipt upp í vinnustaðanám og starfsþjálfun og væri vinnustaðanámið skipulagt og stýrt af skólunum með ferilbók. Stafsþjálfun kæmi svo í lok alls náms þar sem nemandinn þjálfaði upp hraða og færni enda kominn með öll verkfæri sem til þyrfti. Einnig aðlagaði nefndin alla áfanga að nýrri aðalnámskrá samkvæmt heitum og hæfniviðmiðum. Þegar þessari vinnu var lokið árið 2014 þá var hún kynnt starfsgreinaráði og öðrum hagsmunaaðilum og lögð inn í ráðuneytið eins og lög gera ráð fyrir enda hafði styrkur vegna vinnu nefndarinnar gengið út á það að eitthvað fengist nú fyrir peninginn.

Yfirstjórnendur Tækniskólans lögðust hins vegar á móti því að þetta yrði lagt inn og töldu að ekki væri nógu langt gengið í breytingu á námi með þessari námskrá. Það verður að taka það fram að nefndin hefur aldrei fengið rök fyrir því frá stjórnendum Tækniskólans hverju ætti að breyta og hvað gengi ekki nógu langt!

Það ber að hafa í huga að á þessum tíma þá var stytting náms vinsælasta umræðan og kannski hafa hugmyndir stjórnenda TS um frekari breytingar verið fólgnar í því að stytta námið enda er Tækniskólinn í eigu SI. Ég veit ekki hvort að menn geri sér grein fyrir því að nám í húsasmíði hér á landi eru í raun fjórar faggreinar í Danmörku sem tekur næstum því tíu ár að nema. Þannig að allt tal um styttingu náms í húsasmíði færir okkur enn fjær viðmiðunarlöndum okkar. Hvað eigum við þá að miða okkur við?

Eftir stóðu Fjölbraut í Breiðholti og Fjölbraut á Akranesi sem ákváðu að fylgja þessari vinnu eftir og sækja um tilraunaleyfi til að kenna þessa námskrá og þá eingöngu í húsasmíði. Núna er komið árið 2017 og lítið er að frétta. Vinna okkar virðist vera gleymd og skattfé almennings sem fór í þessa vinnu virðist hafa verið sturtað niður í klósettið.

Ef menn hafa hent þessari námskrá í ruslið þá hvet ég Menntamálaráðuneytið til að stýra mótun á framtíð verknámsgreina með faglegum hætti. Það verður eingöngu gert með því að hlusta á allar raddir innan hverrar stéttar fyrir sig ásamt því að fagreinarnar sjálfar ákveði eigin framtíð í gegnum nám í þessum greinum.

Töku úr okkur hrollinn.

Þá komum við að upphafs spurningunni „Hver er metnaðurinn! Hvað viljum við? Hvert viljum við fara?

Að mínu mati þá á fagvitund og metnaður alltaf að vera í forgrunni þegar námskrá er hönnuð. Yfirstjórnendur skóla og stjórnvöld eru að mínu mati ekki best til þess fallin að fjalla um innihald vissra námskráa þar sem það krefst fagþekkingar í hverri grein fyrir sig. Stjórnendur skóla og atvinnurekendur falla loft í þá gryfju að Ebidan skiptir meira máli en agademísk rökhugsun.

Þróun og vinna við námsskrá iðngreina getur ekki farið fram í reykfylltum bakherbergjum. Það eiga að vera fagfélögin hvort um er að ræða sveina- eða meistarafélög, ásamt kennurum faggreina sem marka þessa vinnu. Til þess að við tökum úr okkur hrollinn þá verða þessir aðilar að setjast niður og vinna saman fyrir opnum tjöldum með allt upp á borðinu og eingöngu þannig sækjum við fram og náum árangri iðnmenntun til heilla.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×