Íslenski boltinn

Grétar Sigfinnur nýr liðsmaður Pepsi-markanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Grétar Sigfinnur hefur unnið sjö stóra titla á glæsilegum ferli.
Grétar Sigfinnur hefur unnið sjö stóra titla á glæsilegum ferli. vísir/andri marinó
Pepsi-mörkin eru búin að finna eftirmann Loga Ólafssonar sem hvarf á braut úr þættinum þegar hann var ráðinn þjálfari Víkings í Pepsi-deildinni. Í hans stað kemur inn nýr sérfræðingur í sjónvarpi, Grétar Sigfinnur Sigurðarson.

Grétar, sem í dag leikur með Þrótti í Inkasso-deildinni, á að baki 244 leiki og 26 mörk í efstu deild með Víkingi, Val, KR og nú síðast Stjörnunni á síðustu leiktíð.

Þessi 35 ára gamli uppaldi KR-ingur varð Íslandsmeistari með Vesturbæjarliðinu árin 2011 og 2013. Þá vann hann bikarinn árin 2008, 2011, 2012 og 2014 með KR og einu sinni með Val árið 2005.

Grétar spilaði sitt fyrsta tímabil í efstu deild árið 2004 með Víkingi og var þá markahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að spila sem miðvörður. Hann fór á lán til Vals ári síðar og var hluti af ótrúlegu liði Valsmanna sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn sem nýliði og vann bikarinn.

Hann fór aftur til Víkings árið 2006 og átti stóran þátt í að halda liðinu í efstu deild í fyrsta sinn síðan 1992 en árið 2008 gekk hann í raðir KR og vann sex stóra titla á átta árum.

Grétar sagði skilið við Pepsi-deildina síðasta haust og samdi við Þrótt þar sem hann var gerður að fyrirliða. Þróttarar eru í öðru sæti Inkasso-deildarinnar með níu stig eftir fjórar umferðir.

Grétar hefur í byrjun tímabils vakið nokkra athygli fyrir störf sín sem sérfræðingur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 en hann lætur nú af störfum þar og tekur sæti við háborðið í Pepsi-mörkunum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson og Hjörvar Hafliðason verða vitaskuld áfram sérfræðingar Pepsi-markanna og gera upp sjöttu umferðina á mánudaginn kemur en frumsýning á Grétari verður í sjöundu umferð, eftir landsleikjafríið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×