Innlent

Forsætisráðherrar Norðurlandanna gerðu grín að Donald Trump

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, handleika knöttinn í Bergen.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, handleika knöttinn í Bergen. Utanríkisráðuneytið
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, og aðrir forsætisráðherrar Norðurlandanna hafa vakið mikla athygli fyrir mynd, sem tekin var af ráðherrunum í gær á sumarfundi þeirra í Bergen í Noregi. Myndin þykir skopstæling á mynd sem tekin var af Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og öðrum leiðtogum í heimsókn forsetans til Sádi-Arabíu fyrr í mánuðinum.

Á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að á fyrri degi sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna hafi norræn samvinna verið rædd svo og ýmis alþjóða- og öryggismál. Þá var mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum og öfgasamtökum ofarlega í hugum forsætisráðherranna en mynd, sem tekin var af ráðherrunum á fundinum í gær, hefur vakið sérstaklega athygli.

Myndinni þykir svipa til þeirrar sem tekin var af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, Abdel Fattah el-Sisi, forseta Egyptalands, og Salman bin Abdulaziz al-Saud, konungi Sádi-Arabíu, er Alþjóðleg miðstöð gegn hugmyndafræði öfgamanna var vígð í heimsókn Bandaríkjaforseta til Sádi-Arabíu á dögunum. Á myndinni sjást þeir félagar styðja höndum sínum á upplýstan hnött en hún fór sem eldur í sinu um samfélagsmiðla. Þar kepptust notendur við að líkja aðstæðunum við athafnir þorpara í ævintýrum.

Ljósmyndin umrædda af Donald Trump, Bandaríkjaforseta og leiðtogum Egyptalands og Sádi-Arabíu.Vísir/AFP
Á myndinni sem tekin var í gær virðast Norðurlandaráðherrarnir vísa í þennan fund Donalds Trump og leiðtoga Egyptalands og Sádi-Arabíu á gamansaman hátt. Þeir hafa þó valið öllu tilkomuminni knött, fótbolta, fyrir tilefnið.

Síðari fundardegi Norðurlandaráðherra í Bergen lauk í dag. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, átti tvíhliða fundi með öllum forsætisráðherrum Norðrlanda og ræddi meðal annars útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og nýafstaðinn leiðtogafund NATO í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×