Innlent

Segir ráðherra þöglan um óþægilegar staðreyndir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG. Vísir/Anton
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, segir Kristján Þór Júlíusson hundsa óþægilega fyrirspurn um starfsmannahald Ríkisútvarpsins vegna þess að honum þyki hún óþægileg. Þetta sagði Kolbeinn á þingfundi í gær. Kolbeinn spyr ráðherrann um fjölda verktaka hjá RÚV og hversu stórt hlutfall þeir séu af starfsmönnum stofnunarinnar.

„Það hefur legið fyrir hjá menntamálaráðherra fyrirspurn frá mér síðan 23. mars. Þetta eru rúmir tveir mánuðir sem hæstvirtur ráðherra hefur tekið sér til að svara þessari fyrirspurn og ég hef engin viðbrögð fengið við því,“ segir hann.

Kolbeinn bendir á að samkvæmt þingskaparlögum hafi ráðherrann fimmtán daga til að svara fyrirspurninni. „Þetta eru reglur sem hann brýtur án þess að þurfa nokkuð að koma inn á það hér.“

Kolbeinn telur að starfsmannastjóri hjá RÚV ætti að geta svarað fyrirspurninni á einum eða tveimur dögum. „Það er ekkert í minni fyrirspurn sem kallar á mikla yfirlegu eða rannsóknir eða að það eigi að grafast eitthvað djúpt fyrir um málið. Ég er að spyrjast fyrir um fyrirkomulag starfsmannahalds. Hvernig stendur á því að hæstvirtur ráðherra er búinn að trassa það núna í rúma tvo mánuði að svara þessari spurningu? Það getur einfaldlega ekkert legið að baki nema pólitík,“ segir Kolbeinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×