Innlent

Langþreyttir á bið eftir bókasafnsgreiðslum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rithöfundar og myndhöfundar fá greiddar 60 krónur af hverju útláni. Formaður Rithöfundasambandsins segir greiðslurnar skipta máli.
Rithöfundar og myndhöfundar fá greiddar 60 krónur af hverju útláni. Formaður Rithöfundasambandsins segir greiðslurnar skipta máli. vísir/anton
„Ég veit ekki hvað er að í menntamálaráðuneytinu en þetta er með ólíkindum,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands.

Kristín Helga Gunnarsdóttirvísir/stefán
Félagsmenn í Rithöfundasambandinu, Hagþenki og Myndstefni óttast að þeir fái ekki greiddar afnotagreiðslur úr Bókasafnssjóði á réttum tíma þetta árið. Ástæðan er sú að ráðuneytið brást ekki við ítrekuðum kröfum um að skipað yrði í úthlutunarnefnd sjóðsins. Sjóðurinn er 70 milljónir króna og deilist niður á 700 höfunda sem eru myndhöfundar, fræðihöfundar og svo rithöfundar. Hver höfundur á að fá greiddar sextíu krónur fyrir hvert útlán og eiga greiðslur að berast fyrir 1. júní. Réttur til greiðslu er tryggður með lögum um bókmenntir. 

Kristín Helga segir að greiðslurnar skipti miklu máli fyrir heimilisbókhald rithöfunda. „Ég nefni barnabókahöfunda sérstaklega sem dæmi. Af því að barnabækur fara mikið á bókasöfnin,“ segir hún og tekur jafnframt fram að rithöfundar séu láglaunafólk. „Það myndi nú heyrast eitthvað í ráðuneytisstarfsfólki ef það myndi ekki fá launin sín,“ segir Kristín Helga, sem telur jafnframt að það ætti að vera mjög auðvelt fyrir ráðuneytið að ganga frá málinu.

Úthlutunarnefndin hafi ekki annað hlutverk en að samþykkja úthlutunina formlega. Það sé löngu búið að reikna út hvað hver rithöfundur fær mikið og peningarnir séu til reiðu. Þá sé það hlutverk Rithöfundasambandsins að veita fjármagninu út og þar sé allt til reiðu.

„Við höfum undanfarnar vikur reynt að ná sambandi við ráðuneytið til að fá þessa úthlutunarnefnd samþykkta. Það liggja fyrir tillögur að skipun nefndarinnar inni í ráðuneytinu og við skiljum ekki hvað veldur,“ segir Kristín Helga. Hún segir formenn félaganna stórundrandi yfir því að fá ekki svör og fá ekki að vita hvað veldur. „Og hjá okkur glóa allar línur af því að fólk bíður náttúrlega eftir þessum pening,“ segir hún.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði við Fréttablaðið í gær að búið væri að skipa í nefndina. Skipunarbréf myndu fara út í dag. Hann segir ýmsar ástæður fyrir því að það hafi dregist að skipa þessa nefnd. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×