Lífið

Ást við fyrstu sýn

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Natthawat og Svavar eyða mestum sínum tíma saman á Ban Kúnn og eru alls ekki ósáttir við það hlutskipti.
Natthawat og Svavar eyða mestum sínum tíma saman á Ban Kúnn og eru alls ekki ósáttir við það hlutskipti. Visir/GVA
Þeir Natthawat Voramool og Svavar G. Jónsson eru mættir snemma til vinnu á Völlunum í Hafnarfirði þar sem þeir reka taílenska staðinn Ban Kúnn, það hafa þeir gert saman í um fjögur ár. Þeir undirbúa hádegisönnina en staðurinn er afar vinsæll þótt hann sé í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Taílenski fáninn stendur úti á stétt og blaktir í köldu vorroki, sterkur kryddilmur berst frá staðnum og út á götu.

Natthawat vill fá að gefa bæði ljósmyndara og blaðamanni að borða. Finnst annað ómögulegt og þótt það sé enn miður morgunn þá er ekki hægt að neita. Hann býður upp á pad thai eftir uppskrift langömmu sinnar. Pad thai sósan er fjölskylduleyndarmál, segir hann. Fjölskylda Natthawats hefur rekið veitingastað í Taílandi í nokkrar kynslóðir. „Ég lærði af systur minni, systir mín af móður okkar, móðir mín af ömmu og svo framvegis,“ segir Natthawat.

Hökutoppurinn mátti fjúka!

Natthawat og Svavar fundu ástina fyrir þrettán árum á bar í Reykjavík. Það er óhætt að segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn. „Við hittumst bara niðri í miðbæ Reykjavíkur, á Kaffi Kósý,“ segir Natthawat frá. „Mér fannst hann glæsilegur, hann var sko ekki jafnfeitur og hann er í dag,“ segir hann og hlær. „Hann gekk til mín og bauð mér upp á bjór. Mér fannst hann sætur. Við náðum strax saman, hann gaf mér hring þarna í fyrsta sinn sem við hittumst. Svavar er líka góður maður, hjálpsamur. En hann var með hökutopp sem ég lét hann raka af sér! Það var algjört skilyrði,“ segir Natthawat stríðinn.

„Já, já,“ segir Svavar. „Ég sat þarna inni í horni í rólegheitum og var að fá mér einn bjór. Svo kom hann inn og það geislaði af honum. Og það geislar af honum enn í dag. Við höfum verið saman síðan þá og giftum okkur fljótlega.“

Natthawat kom til Íslands í heimsókn til bróður síns ári áður en hann hitti Svavar. „Ég var fyrst efins um að lífið væri gott hér en skipti um skoðun strax. Hér er svo gott fólk, ég kann vel við veðrið og hreina loftið og ég ákvað fljótlega að setjast að hér,“ segir Natth­awat.

„Hann er með svolítið ofnæmi og astma, loftið hér er gott fyrir hann,“ segir Svavar alúðlega. „Hann er nýkominn frá Taílandi og það var eiginlega of heitt fyrir hann. Hann var oft að hringja, svefnlaus vegna hitans á næturnar.“

Lífið betra á Íslandi

Draumur Natthawats var að stofna eigið fyrirtæki. Hann er menntaður viðskiptafræðingur og kennari. „Ég starfaði í banka í fimmtán ár sem útlánafulltrúi. Ég hætti því starfi og fór að kenna, ég gerði það í sjö ár áður en ég fluttist til Íslands. Lífið var gott í Taílandi, en bara allt öðruvísi. Það eru aðrar kröfur gerðar. Mér finnst hins vegar lífið betra á Íslandi,“ segir Natth­awat og horfir ástúðlega til Svavars.

Svavar er stoltur af manni sínum. „Hann vann mikið til að fjármagna nám sitt, hann hefur unnið mikið alla sína ævi. Ef þú átt ekki ríka fjölskyldu að baki þá getur fólk þurft að heyja harða baráttu fyrir sínu. En honum tókst þetta vel, menntaði sig vel og var í góðri stöðu,“ segir Svavar sem segir einnig frá því að Natthawat hafi hætt í bankanum til að annast veikan föður sinn. „Hann fór út á land til að kenna og annast föður sinn. Hann hefur verið duglegur alla ævi. Nú erum við saman í þessu.“

Svavar var lengi í lögreglunni og hefur fengist við ýmis störf þar til hann endaði í veitingarekstri á Völlunum. „Ég hef nú gert eitt og annað. Ég var í lögreglunni í mörg ár, svo var ég þjónustustjóri hjá öryggisgæslufyrirtæki og gæslumaður hjá stjórnarráðinu. Ég hef aðallega verið í öryggisbransanum. Síðan var ég prófdómari í ökuprófum.“

Hvers vegna hætti hann í löggunni? „Það var nú bara að ég og konan þáverandi ætluðum að hætta vaktavinnu. Vaktavinnan var erfið. Lögreglustarfið hefur alltaf verið erfitt, en ég vildi ekki vera lögreglumaður í dag.“

Ban Kúnn þýðir „heima hjá þér“ á taílensku. „Við viljum að fólkinu líði eins og heima hjá sér. Viljum hafa fallegt og snyrtilegt í kringum okkur og viljum að fólk finni að það sé velkomið. Og það vilji koma aftur,“ segir Svavar. „Svo erum við alltaf hér. Það eru fá skipti þar sem hefur verið eldað heima síðan við opnuðum staðinn, þannig að þetta er viðeigandi heiti á staðnum,“ segir hann.

Það eru nú ekki allir sem þola að vinna svona saman? „Það hvessir nú stundum. Við erum báðir með mikið skap,“ segir Svavar og Natthawat kinkar kolli. „En við erum nokkuð sammála um það sem við erum að gera hér. Það hefur gengið vel.“





Upphafið á sautjánda júní

Veitingastaðurinn varð í raun til í kringum hátíðarhöld á sautjánda júní í Hafnarfirði. „Fyrir átta árum ákvað Natthawat að taka þátt í Austurgötuhátíðinni á sautjánda júní og elda taílenskan mat heima og selja,“ segir Svavar. „Hann sagði mér að ef maturinn myndi ekki seljast þá þyrfti ég að borða hann.“

Svavar fékk enga afganga. Natth­awat seldi allt sem hann hafði eldað á klukkutíma og Svavar var sendur í margar ferðir til að kaupa meira kjöt og núðlur. „Svona byrjaði þetta, þetta hratt okkur af stað,“ segir Svavar sem á þessum tíma var atvinnulaus og leitaði sér að einhverju áhugaverðu að gera. „Við færum  veitingastaðinn heim til okkar í Austurgötuna á sautjánda júní og í ár tökum við þátt í áttunda sinn.“

„Fyrsta árið var ég með tíu kíló af mat sem seldist upp á klukkustund. Á næsta ári byrjaði ég með tuttugu kíló en samt seldist allt upp aftur. Það var grenjandi rigning en fólk stóð í röðum og beið eftir matnum. Svavar þurfti að fara í alveg jafn margar ferðir í búðina,“ segir Natthawat og hlær.

„Fólk sagðist hafa beðið í heilt ár eftir því að fá aftur góðar núðlur. Við kláruðum allt kjötið og sérkryddið í búðinni,“segir Svavar.

„Á síðasta ári var ég með 70 kíló af svínakjöti og 100 kíló af kjúklingi, það seldist allt upp,“ segir Natthawan. 

„Þetta er dásamlegur dagur, við hlökkum alltaf jafnmikið til, það er ekkert stoppað!“ segir Svavar.





Nam tok, réttur með svínakjöti sem er ekki að finna á matseðlinum. Fólk má hins vegar vel biðja um hann. Fréttablaðið/GVA
Blómasúpa fyrir veikan mann

Munirnir inni á staðnum eru nærri allir frá Taílandi og afar ræktarlegar plöntur sem Natthawat á heiðurinn af að dekstra við. Stór bananaplanta er til prýði í einu horninu. „Natth­awat er með græna fingur. Hann ræktar kryddjurtir heima sem við notum hér, basiliku, steinselju, kóríander og myntu og fleira. Allt sem hann leggur sig við, það blómstrar,“ segir Svavar.

„Ég trúi því að matur sé mikilvægur, hann getur læknað okkur,“ segir Natthawat. „Ég nota bara ferskt grænmeti og kryddjurtir, ég myndi aldrei nota frosið hráefni. Ég þoli ekki slíkt. Í Taílandi vitum við að hver jurt hefur sinn mátt og tilgang. Kóríander er gott fyrir hjartað til dæmis,“ segir hann og segist stundum benda fólki sem er að glíma við heilsufarsvandamál á hvað það geti borðað til að bæta líðan sína.

„Einu sinni þegar ég var mjög mikið veikur þá eldaði hann handa mér sérstaka blómasúpu,“ segir Svavar og brosir til Natthawats.

„Ég elda fyrir aðra það sem ég myndi elda fyrir sjálfan mig. Það er svona ákveðinn kærleikur í þessu,“ segir Natthawat sem hefur reitt fram fyrir blaðamann og ljósmyndara tvo rétti. Annars vegar pad thai sem er vinsælasti rétturinn á matseðlinum og nam tok sem er ekki á matseðlinum. „Fólk kemur hingað og vill fá ekta taílenskan mat, rétti sem það smakkaði ef til vill á ferðalagi um Taíland, við verðum við því,“ segir Svavar.

Hvað finnst þér um íslenskan mat, Natthawat? „Mér finnst voðalega gott að fá mér saltkjöt. Ég borða líka mikið af lambakjöti, sérstaklega þegar við Svavar förum út að borða. Ég borða í raun allan íslenskan mat. Það er kannski helst skata sem ég er ekki sérstaklega hrifinn af.“

„Hann borðar þorramat og allt,“ segir Svavar og rifjar upp sögu af þorrablóti. „Það stóð kona fyrir aftan hann í biðröðinni að hlaðborðinu. Hún hallaði sér að honum og hvíslaði: Veistu hvað þetta er, vinur?“

Mætir fordómum með brosi

Natthawat segir íslenskt samfélag hafa breyst. Taílendingum sé tekið opnum örmum. Hann verður æ sjaldnar fyrir fordómum vegna uppruna síns en þegar það hendir segist hann taka því með brosi á vör.

„Fyrst þá nísti það að hjartarótum. Núna mæti ég fordómum með brosi og tek þá ekki nærri mér. Ég vann einu sinni á Hrafnistu við að gefa öldruðum að borða. Þá neituðu sumir þeirra að taka við matnum frá mér og sögðu: Nei, við borðum ekki mat frá svörtum manni. Ég hef líka orðið fyrir aðkasti niðri í bæ. Mér sagt að fara af því ég er með dökkan hörundslit. Ég er ekki einu sinni með sérlega dökkan húðlit,“ segir Natth­awat og skoðar á sér hendurnar. „En það er svolítið síðan, Taílendingum er tekið vel á Íslandi í dag og þeir hafa aðlagast vel hér. Við finnum bara fyrir vináttu og virðingu fólks í dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×