Lífið

Trudeau brá á leik með prúðbúnum menntaskólanemum

Anton Egilsson skrifar
Trudeau kemur skokkandi fram hjá hópi menntaskólanema.
Trudeau kemur skokkandi fram hjá hópi menntaskólanema. Skjáskot
Hópi prúðbúinna menntaskólanema á leið á lokaball í borginni Vancouver í Kanada brá heldur betur í brún þegar Justin Trudeau forsætisráðherra landsins kom skokkandi fram hjá þeim í gærkvöldi.

Á mynd sem birt var í dag virðist við fyrstu sýn sem að forsætisráðherrann sé að „photobomba“ eða lauma sér inn á myndina þar sem krakkarnir standa prúðbúnir. Í raun var Trudeau þó ekki að lauma sér inn á myndina heldur var um góðlátlegt grín Trudeau og krakkanna að ræða en það var Adam Scotti, opinber ljósmyndari Trudeau,  sem birti myndina á Twitter síðu sinni.

Trudeau var úti að skokka þegar hann hljóp fram hjá nemendahópnum. Vakti það eðlilega mikla athygli hópsins og stóðust þau hreinlega ekki mátið að fá mynd með sjálfum forsætisráðherranum.  

„Við vorum bara úti að taka myndir og þá allt í einu kemur Trudeau hlaupandi fram hjá,“ sagði einn nemendanna í samtali við BBC og bætti við: „Svo kölluðum við á hann og vildum fá hann með okkur á mynd.“

Það er greinilega stutt í glensið hjá hinum 46 ára gamla Trudeau sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra Kanada frá árinu 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×