Innlent

Ólafur: Lít svo á að þessi heiftúðuga árás hafi mistekist

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ólafur Arnarson segir að um sé að ræða árás gegn honum sjálfum og hans æru.
Ólafur Arnarson segir að um sé að ræða árás gegn honum sjálfum og hans æru. Stöð 2
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir vantraustsyfirlýsingu stjórnar samtakanna fyrst og fremst hafa verið árás á hann sjálfan og hans æru. Mögulega hafi pólitískar hvatir legið að baki vantraustinu og segir að um ósannindi sé að ræða – gögn staðfesti það.

„Það er allavega komið fram skjalfest að ég fer með rétt mál. Ásakanir um að ég hafi gert ráðningarsamning við sjálfan mig, án þess að láta stjórn vita, og fengið mér bíl á kostnað samtakanna, án þess að láta stjórn vita, þær eru rangar,“ segir Ólafur í Bítinu á Bylgjunni.

Ríkisútvarpið greindi frá því síðdegis í gær að stjórn Neytendasamtakanna hefði í febrúar síðastliðnum samþykkt að fela varaformanni samtakanna að gera ráðningarsamning við Ólaf, formanninn, samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð. Þá hafi það jafnframt verið vilji samtakanna að útvega bíl fyrir formanninn og skrifstofu.

Ólafur segir mikilvægt að þessar upplýsingar hafi fengið að líta dagsins ljós enda séu bornar á sig þungar og alvarlegar sakir. „Þannig að ég lít svo á að þessi heiftúðuga árás gegn minni æru hafi mistekist,“ segir hann.

Stjórnin mun koma saman á fundi í kvöld, en hún samþykkti vantraust á Ólaf fyrr í þessum mánuði og hefur sagt honum upp sem starfandi formanni.


Tengdar fréttir

Sögðu formanni Neytendasamtakanna upp

Stjórn Neytendasamtakanna hefur sagt upp ráðningarsamningi við Ólaf Arnarson, formann samtakanna sem starfaði jafnframt sem framkvæmdastjóri þeirra. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV en fyrr í dag bárust fregnir af því að stjórnin hefði lýst yfir vantrausti á Ólaf þann 6. maí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×