Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Grindavík 2-3 | Andri Rúnar með þrennu á Skaganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA.
Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA. vísir/anton
Andri Rúnar Bjarnason skoraði öll þrjú mörk Grindavíkur þegar liðið lagði ÍA að velli, 2-3, í 4. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Með sigrinum lyftu Grindvíkingar sér upp í 4. sæti deildarinnar. Skagamenn eru hins vegar án stiga á botninum.

Andri Rúnar kom Grindavík yfir á 14. mínútu en Steinar Þorsteinsson jafnaði metin á 28. mínútu.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk ÍA vítaspyrnu. Garðar Gunnlaugsson fór á punktinn en Kristijan Jajalo varði spyrnu hans.

Þegar aðeins ein og hálf mínúta var liðin af seinni hálfleik skoraði Andri Rúnar sitt annað mark með skoti af stuttu færi eftir sendingu Arons Freys Róbertssonar.

Andri Rúnar skoraði sitt þriðja mark á 88. mínútu en Garðar minnkaði muninn í 2-3 þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma. Nær komust Skagamenn ekki og Grindvíkingar fögnuðu 2-3 sigri.

Af hverju vann Grindavík?

Grindvíkingar lögðu mikið í leikinn og komu sér í gegnum erfiðustu kaflana. Skagamenn voru sterkari aðilinn eftir að Grindavík komst í 1-0 og fengu gullið tækifæri til að fara með 2-1 stöðu inn í hálfleikinn. Jajalo sá hins vegar til þess að staðan var jöfn í hálfleik með því að verja vítaspyrnu Garðars.

Gestirnir fengu draumabyrjun á seinni hálfleiknum og höfðu mun betri tök á leiknum en í þeim fyrri. Heimamenn, sem voru mjög hættulegir í fyrri hálfleik, sköpuðu sér lítið í þeim seinni og fengu svo kalda vatnsgusu í andlitið þegar Andri Rúnar skoraði sitt þriðja mark.

Þessir stóðu upp úr:

Andri Rúnar hélt vörn Skagamanna við efnið allan tímann og skoraði þrjú mörk úr fjórum færum. Andri Rúnar hefur byrjað tímabilið vel og er kominn með fjögur mörk í Pepsi-deildinni.

Alexander Veigar Þórarinsson lagði upp fyrsta mark Grindavíkur og sýndi á köflum hversu hæfileikaríkur hann er. Þá átti Aron Freyr fínan leik á hægri kantinum.

ÍA spilaði vel á löngum köflum í fyrri hálfleik þar sem kantmennirnir Þórður Þorsteinn Þórðarson og Steinar Þorsteinsson voru atkvæðamiklir. Það dró aðeins af þeim síðarnefnda í seinni hálfleik en Þórður var hættulegur allan tímann.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍA var slakur eins og hann hefur verið í upphafi tímabils. Skagamenn eru búnir að fá á sig 13 mörk í fyrstu fjórum umferðunum og fengu á sig þrjú mörk gegn Fram í Borgunarbikarnum í síðustu viku.

Skagamenn eru búnir að skora sjö mörk, sem er nokkuð vel af sér vikið, en það telur ekkert þegar vörnin heldur hvorki vatni né vindum.

Grindvíkingar áttu í vandræðum með kantspil Akurnesinga í fyrri hálfleik en voru mun þéttari í þeim seinni og stoppuðu í götin í vörninni.

Hvað gerist næst?

Skagamenn fara til Vestmannaeyja á laugardaginn og mæta þar ÍBV. ÍA er eina lið Pepsi-deildarinnar sem er ekki búið að ná í stig og það þarf að breytast hið snarasta ef ekki á illa að fara.

Grindvíkingar eiga mjög erfiða dagskrá fyrir höndum en í næstu þremur umferðum mæta þeir Val, KR og FH.

Einkunnir:

ÍA (4-3-3): Ingvar Þór Kale 5 - Hilmar Halldórsson 4, Gylfi Veigar Gylfason 4, Arnór Snær Guðmundsson 4, Aron Ingi Kristinsson 4 (80. Ólafur Valur Valdimarsson) - Arnar Már Guðjónsson 5, Robert Menzel 5 (69. Tryggvi Hrafn Haraldsson 6), Albert Hafsteinsson 5 - Þórður Þorsteinn Þórðarson 7, Garðar Gunnlaugsson 6, Steinar Þorsteinsson 6.

Grindavík (3-4-3): Kristijan Jajalo 6 - Brynjar Ásgeir Guðmundsson 6, Matthías Örn Friðriksson 6, Jón Ingason 5 - Aron Freyr Róbertsson 7 (84. Hákon Ívar Ólafsson), Milos Zeravica 6, Gunnar Þorsteinsson 6, William Daniels 6 (89. Nemanja Latinovic) - Sam Hewson 6, Andri Rúnar Bjarnason 9* (89. Juanma Ortiz Jimenez), Alexander Veigar Þórarinsson 7.

Gunnlaugur: Of ódýr mörk sem við fáum á okkur

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var að vonum svekktur að fá ekkert út úr leiknum gegn Grindavík í kvöld.

„Þetta er hundfúlt. Við lögðum upp með að ná sigri hér í dag. Þetta er gríðarlega súrt að það gekk ekki eftir,“ sagði Gunnlaugur sem var ekki sáttur með varnarleik Skagamanna í kvöld.

„Þeir skora mjög snemma, enn og aftur. Við jöfnum og fáum víti. Við áttum frábæran kafla síðustu 25 mínúturnar í fyrri hálfleik þar sem það var bara eitt lið á vellinum. Svo byrjuðum við seinni hálfleik á að gefa þeim aftur mark og þetta er of dýrt,“ sagði Gunnlaugur.

„Það gefur auga leið að við fáum of mörg mörk á okkur. Við gerðum ákveðnar ráðstafanir fyrir þennan leik sem þéttu liðið að einhverju leyti en þetta eru of ódýr mörk sem við fáum á okkur.“

Skagamenn eru stigalausir á botni deildarinnar og staða þeirra er erfið. Gunnlaugur segir að hans menn ætli ekki að leggja árar í bát.

„Vissulega er þetta brött brekka. Það er gríðarlega mikilvægt að við missum ekki hausinn. Það er leikur strax á laugardaginn gegn ÍBV og við verðum að mæta með sama baráttuanda í hann. Það var margt jákvætt í dag sem við getum nýtt en við þurfum að skerpa á ákveðnum hlutum varnarlega. Við gerum það og komum tvíefldir til leiks,“ sagði Gunnlaugur að lokum.

Óli Stefán: Jafntefli hefðu verið sterk úrslit

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var virkilega ánægður með sigurinn á ÍA á Akranesi í kvöld.

„Þegar ég var að setja leikinn upp voru jafntefli alltaf sterk úrslit fyrir mig. Sigur hefði verið bónus,“ sagði Óli Stefán í samtali við Vísi eftir leik.

„Við skildum allt eftir úti á vellinum og unnum þvílíkt fyrir þessu. Þess vegna er ég rosalega stoltur og ánægður með strákana.“

Grindavík átti undir högg að sækja lengi vel í fyrri hálfleik. Undir lok hans fengu Skagamenn svo gullið tækifæri til að komast yfir en Kristijan Jajalo varði vítaspyrnu Garðars Gunnlaugssonar. Óli Stefán segir að sú varsla hafi vegið þungt.

„Við byrjuðum vel og það voru gæði í okkar leik. Mér fannst við vera með stjórn á leiknum. En vindurinn var erfiður, þeir settu háa bolta inn á teiginn og þetta var mikil barátta. Þeir tóku yfir leikinn á þessum kafla en Kristijan kom upp á hárréttu augnabliki fyrir okkur.“

Grindvíkingar skoruðu snemma í seinni hálfleik og voru með góð tök á leiknum eftir það.

„Það er gaman að því að þetta mark kom meistari [Milan Stefán] Jankovic upp með í dag. Teiknaði upp innkast og það virkaði. Mér fannst við ná takti eftir þetta og hlupum og börðumst og spiluðum flottan fótbolta,“ sagði Óli Stefán sem er vonum ánægður með uppskeru Grindvíkinga til þessa; sjö stig í Pepsi-deildinni og komnir áfram í Borgunarbikarnum.

„Ég gæti alveg beðið um meira en ætla ekki að gera það. Ég er mjög raunsær og geri mér fyllilega grein fyrir hvar við erum og hverjir við erum og þakka fyrir öll stig sem við fáum. En við vinnum mikið fyrir þeim og strákarnir og þjálfarateymið hafa lagt mikið á sig. Ég var líka sérstaklega ánægður að sjá stuðninginn sem við fengum í dag,“ sagði Óli Stefán að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira