Íslenski boltinn

Óli Stefán: Meistari Jankovic teiknaði þetta upp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óli Stefán og félagar eru í 4. sæti Pepsi-deildarinnar með sjö stig.
Óli Stefán og félagar eru í 4. sæti Pepsi-deildarinnar með sjö stig. vísir/ernir
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var virkilega ánægður með sigurinn á ÍA á Akranesi í kvöld.

„Þegar ég var að setja leikinn upp voru jafntefli alltaf sterk úrslit fyrir mig. Sigur hefði verið bónus,“ sagði Óli Stefán í samtali við Vísi eftir leik.

„Við skildum allt eftir úti á vellinum og unnum þvílíkt fyrir þessu. Þess vegna er ég rosalega stoltur og ánægður með strákana.“

Grindavík átti undir högg að sækja lengi vel í fyrri hálfleik. Undir lok hans fengu Skagamenn svo gullið tækifæri til að komast yfir en Kristijan Jajalo varði vítaspyrnu Garðars Gunnlaugssonar. Óli Stefán segir að sú varsla hafi vegið þungt.

„Við byrjuðum vel og það voru gæði í okkar leik. Mér fannst við vera með stjórn á leiknum. En vindurinn var erfiður, þeir settu háa bolta inn á teiginn og þetta var mikil barátta. Þeir tóku yfir leikinn á þessum kafla en Kristijan kom upp á hárréttu augnabliki fyrir okkur.“

Grindvíkingar skoruðu snemma í seinni hálfleik og voru með góð tök á leiknum eftir það.

„Það er gaman að því að þetta mark kom meistari [Milan Stefán] Jankovic upp með í dag. Teiknaði upp innkast og það virkaði. Mér fannst við ná takti eftir þetta og hlupum og börðumst og spiluðum flottan fótbolta,“ sagði Óli Stefán sem er vonum ánægður með uppskeru Grindvíkinga til þessa; sjö stig í Pepsi-deildinni og komnir áfram í Borgunarbikarnum.

„Ég gæti alveg beðið um meira en ætla ekki að gera það. Ég er mjög raunsær og geri mér fyllilega grein fyrir hvar við erum og hverjir við erum og þakka fyrir öll stig sem við fáum. En við vinnum mikið fyrir þeim og strákarnir og þjálfarateymið hafa lagt mikið á sig. Ég var líka sérstaklega ánægður að sjá stuðninginn sem við fengum í dag,“ sagði Óli Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×