Innlent

Verktaki sagður stunda sjálftöku af reikningi eldri konu

Jakob Bjarnar skrifar
Málið hefur tekið mjög á Önnu Þrúði en hún nýtur stuðnings víða að og ætlar að standa í lappirnar gagnvart reikningum sem hún segir ekki eiga sér stoð.
Málið hefur tekið mjög á Önnu Þrúði en hún nýtur stuðnings víða að og ætlar að standa í lappirnar gagnvart reikningum sem hún segir ekki eiga sér stoð. visir/gva
„Ég er enginn milli og ég neita að láta svona karla nota sér heimabanka gamallar konu fyrir sjálftöku í greiðslum fyrir verk sem ýmist voru aldrei unnin og ég get sannað það eða voru aldrei samþykkt,“ segir Anna Þrúður Þorkelsdóttir fyrrverandi formaður Rauða kross Íslands með meiru.

Anna Þrúður er á níræðisaldri og búsett í Lækjasmára í Kópavogi. Hún segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við verktaka vegna breytinga á baðherbergi hennar. Anna Þrúður segist auk þess hafa mátt sæta hálfgildings hótunum af hálfu verktakanna, Baðlínunnar, sem hafa sagt henni að greini hún frá málinu í fjölmiðlum, þá muni þeir fara í meiðyrðamál við hana. Anna Þrúður er komin í standandi vandræði því innheimtukröfur hafa streymt til hennar; stefna og fátt eitt virðist geta komið í veg fyrir að málið endi fyrir dómi. Að sögn Ingibjargar Magnúsdóttur hjá Neytendasamtökunum er málið komið úr höndum samtakanna eftir að sættir tókust ekki.

Jóhannes Jóhannesson eigandi Baðlínunnar segir hins vegar mál Önnu Þrúðar á sandi reist. Hann segist hafa sett upp fjölda baðherbergja og aldrei lent í öðru eins. Að sögn Jóhannesar sé allt eðlilegt í tengslum við verkið og útsenda reikninga. Og það sem meira er, Jóhannes segist geta sannað það og hefur sent blaðamanni Vísis fjölda tölvupósta máli sínu til stuðnings, af samningum og tölvupóstsamskiptum: Um fullkomlega eðlilega viðskiptahætti sé að ræða.

Málið undið uppá sig

Málið er í sjálfu sér einfalt þó það hafi undið uppá sig með tilheyrandi flækjustigum og brigslyrðin ganga á víxl. Anna Þrúður segist rukkuð fyrir vinnu sem hún ekki bað um. En, þar stendur orð gegn orði því Jóhannes segir það ekki svo vera – þetta sé allt á hreinu. En, áður en við heyrum nánar hans hlið þessa máls skulum við heyra frásögn Önnu Þrúðar og dóttur hennar.

Anna Þrúður fer yfir reikninga með Vísi í eldhúsi sínu. Anna Þrúður segir, og hefur eftir þeim hjá Neytendasamtökunum, að hún sé fráleitt ein sem lent hefur í aðstæðum sem þessum.visir/gva
„Þó ég sé rúmlega áttræð er ég ekki jafn auðveld að snuða sem sú gamla kalkaða kella og þessir gaurar töldu mig vera,“ segir Anna Þrúður og bætir því við að hún hafi ráðfært sig við unga konu, sannkallaðan stjörnulögfræðing, vin sinn „sem sagði þetta væru bragðarefir en skoraði á mig að standa í lappirnar.“ Og það ætlar Anna Þrúður að gera.

Ragnhildur Anna Gunnarsdóttir er dóttir Önnu Þrúðar og það hefur tekið hana sárt að fylgjast með hremmingum móður sinnar. Þær rekja þessar raunir fyrir blaðamanni Vísis.

Vildi fá sér sturtu í stað baðkars

Anna Þrúður ákvað eftir margra ára umhugsun að fá aðila til að breyta baðherberginu sínu, fá sér sturtu í stað þess að klöngrast í baðkar sem fyrir var til að þvo sér. Fékk hún til þess verktaka-fyrirtæki sem sérhæfir sig í að endurgera baðherbergi (Baðlínan).

„Þessi aðili auglýsir grimmt á Facebook. Þeir koma að skoða og gera henni svo tilboð uppá 1,750 milljón króna, vinna og efni, (ekki innréttingar og speglar). Hún sá fram á að geta lækkað tilboðið með því að kaupa sjálf flísarnar og allt efni til flísalagnar. Eftir stóð þá tilboð upp á 1,5 milljón króna.“

Verkið var unnið í maí og júní á síðasta ári. Að sögn þeirra mæðgna tóku reikningar þegar að streyma í heimabanka Önnu Þrúðar sem hún greiddi samviskusamlega. Verklok voru í júní. En í lok árs var Önnu Þrúði tekið að lengja eftir greiðslukvittun sem hana vantaði til að geta fengið virðisaukaskatt endurgreiddan.

Háir reikningar fyrir óumbeðin smáverk

„10 dögum fyrir jól sér hún að kominn er reikningur frá þeim inn á heimabankann upp á tæplega hálfa milljón með eindaga 23.desember. Hún fær áfall og veit ekki hvað er í gangi? Hringir í þá og fær þau svör að þetta sé reikningur fyrir aukaverk. Einu aukaverkin sem hún samþykkti var að hengja upp tvær myndir, setja upp tvo snaga, eitt handfang í sturtu, tengja eldhúskrana á vask og athuga hvort mygla reyndist vera í horni votrýmis (engin mygla fannst),“ segir Ragnhildur Anna. Og Anna Þrúður bætir við:

Stefna á hendur Önnu Þrúði verður birt á morgun en krafan á hendur henni er nú komin í rúmar sex hundruð krónur.visir/gva
„Ég var hér á staðnum alltaf á meðan á verkinu stóð og átti í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins einkum tvo erlenda menn. Verkstjórinn, sem er bróðir forstjórans, talaði aldrei við mig en samdi þó aukavinnukröfuna.“

Anna Þrúður leitaði til Neytendasamtakanna með mál sín og segir að samtökin standi með sér. Þetta sé ekki í lagi. En þau geti ekkert gert nema setja sig í samband við verktakann og reyna að fá hann til að afturkalla reikninginn.

Fólk grátandi og miður sín vegna svona mála

„Verktakinn lét ekki undan þrátt fyrir nokkur símtöl af hálfu Neytendasamtakanna, hann gaf  í skyn að móðir mín væri bara gömul kona sem væri búin að gleyma öllu, hafa ber í huga að hún er eldklár enn og stálminnug og var til staðar á meðan verkið var unnið,“ segir Ragnhildur Anna.

Þær segja að hjá Neytendasamtökunum hafi þau fengið þær upplýsingar að margir væru í sömu stöðu og Anna Þrúður; fólk kæmi til þeirra hágrátandi og miður sín vegna svona mála. Og, það sem verra er, fólk er varnarlaust gagnvart öðru eins og þessu.

„Neytendasamtökin hafa enga burði til að gera neitt meir en að hafa samband við verktaka. Og almenningur getur ekki gert neitt nema semja um greiðslufrest vegna þess að fáir hafa efni á því að skjóta málinu til dómstóla,“ segir Ragnhildur Anna. Og hún heldur áfram.

Fólk varnarlaust gagnvart tilhæfulausum reikningum

„Móðir mín hringdi í meistarafélag iðnaðarmanna og þar var sagt að margir hefðu hringt í þá og kvartað undan þessum baðverktaka. En enginn getur gert neitt til að sporna við þessari græðgi. Innheimtufyrirtæki hefur sent móður minni fjöldann allan af innheimtubréfum og nú er staðan sú að það er búið að stefna henni fyrir dómstólum.“

Þær spyrja hvort það geti verið í lagi að verktakar hafi óskertan aðgang að heimabanka verkkaupa og geti þar sett alls konar bullreikninga þrátt fyrir að búið sé að greiða verk samviskusamlega samkvæmt tilboði?

„Er í lagi að verktakar geti komist upp með það að smyrja ofan á uppsett verð það sem þeim hentar hverju sinni. Hver er réttur neytenda?“ spyrja þær mæðgur.

Verktakinn veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið

Jóhannes, eigandi Baðlínunnar, hefur allt aðra sögu að segja. Hann segir það yfir vafa hafið að hans menn hafi unnið innan ramma. Allt eins og umsamið var og málflutningur Önnu Þrúðar sé kominn yfir öll velsæmismörk. Jóhannes nefnir sem dæmi að fyrir liggi tölvupóstar þar sem Anna Þrúður sannarlega samþykkti kaup á efni, hvernig má þá vera að hún hafi ekki samþykkt verkið?

Og Jóhannes sendi Vísi öll gögn í málinu og má sjá dæmi um einn póst frá honum hér neðar, þar sem fram koma meðal annars upplýsingar um uppgjör.

Jóhannes hefur sent Vísi öll gögn í málinu og hér er dæmi um póst frá honum þar sem hann fer ítarlega yfir málið.
Segir að verið sé að koma óorði á fyrirtæki sitt

En, hótaði hann Önnu Þrúði því að fara í meiðyrðamál talaði hún við fjölmiðla um þetta? Jóhannes segir ljóst að hann þurfi að meta stöðu sína því þetta gangi út á að koma óorði á sig og fyrirtæki sitt sem tekið hefur nokkur ár að byggja upp. „Ég sagði að ég yrði að meta stöðu mína ef fólk færi með ósannindi í fjölmiðla.“

Jóhannes fer ekki í grafgötur með að honum þykir þetta mál ekki eiga heima í fjölmiðlum, betra sé að fá niðurstöðu í það áður en til slíkrar aðkomu kemur. Málið er nú komið til Þórðar Arnar Árnasonar lögfræðings hjá Myntu sem gefið hefur út stefnu á Önnu Þrúði. Stefnan verður birt á miðvikudaginn. Reikningurinn er kominn í yfir 600 þúsund krónur. Jóhannes segir það varla svo að lögfræðingurinn hefði tekið málið að sér væri það ekki í lagi. Og að málið hafi ekki verið sent í innheimtu fyrr en það hafi verið skoðað af Neytendasamtökunum. Og enn er um að ræða orð gegn orði, Anna Þrúður telur samtökin standa með sér en Jóhannes er á því að þaðan hafi hann fengið ótvíræð skilaboð þess efnis að viðskiptahættir hans hafi verið eðlilegir.

Anna Þrúður stendur föst á sínu

Ingibjörg Magnúsdóttir er fulltrúi hjá Neytendasamtökunum og hefur annast málið fyrir hönd samtakanna. Hún segir hér einhvern misskilning uppi, það sé ekki Neytendasamtakanna að úrskurða um mál heldur séu samtökin einskonar sáttasemjari.

„Anna Þrúður vill meina að hún hafi ekki samþykkt þessi aukaverk en Jóhannes vill meina að svo sé. Hann var ekki tilbúinn til að fella niður reikninginn heldur allan kostnað við innheimtu. En hún vildi ekki sætta sig við það. Í þessu vantar sannanir. Anna Þrúður tók þá ákvörðun að fara með málið alla leið,“ segir Ingibjörg í samtali við Vísi. Og þar með fór það úr höndum samtakanna. Og því bendir allt til þess að það fari fyrir dóm.

Ingibjörg vitnar aukinheldur í lög um þjónustukaup, það er ef verk er annað og meira en gert var ráð fyrir í upphafi. „Þá á að stoppa verkið og tala við kaupanda verksins. Fá samþykki fyrir því að þetta aukaverk sem kom upp, það eigi að halda áfram í því og tiltaka hvað það kostar. Anna Þrúður segir að það hafi aldrei verið gert. Hún hefur staðið mjög fast á sínu, ætlar ekki að láta labba yfir sig, eins og hún segir. En, þetta hefur valdið henni miklu hugarangri,“ segir Ingibjörg hjá Neytendasamtökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×