Skoðun

Ferðaþjónusta – frá eldgosi til hamfara af mannavöldum

Unnur Svavarsdóttir skrifar
Á upphafsdögum gossins í Eyjafjallajökli, meðan eingöngu gaus á Fimmvörðuhálsi, ákvað ég og þrír aðrir að stofna ferðaskrifstofu sem mundi sérhæfa sig í móttöku erlendra gesta. Ég byggi á áratuga reynslu úr ferðaþjónustu og tveir hluthafanna eiga og reka ferðaskrifstofu í Hollandi sem sérhæfir sig í Íslandsferðum. Við töldum okkur hafa góðan grunn og að eldgosið yrði okkur ekki til mikilla trafala. Sem ekki varð, heldur hefur mestum vandræðum valdið hvað rekstrarumhverfið er óstöðugt. Óstöðugleikann má kalla manngerðar hamfarir og er að hluta til af völdum stjórnvalda.

Það sem ferðaskrifstofa eins og okkar gerir, er að velja þjónustuframboð frá öðrum innlendum fyrirtækjum, eins og gistingu, mat, bílaleigubíla og afþreyingu, raða því saman og selja sem einn pakka. Það skiptir okkur því ekki máli á hvaða þjónustuþátt ferðaþjónustunnar skattar og álögur eru lagðar, það endar í heildarverði pakkanna okkar.

Frá þeim tíma þegar mitt fyrirtæki var stofnað árið 2010 höfum við farið í gegnum fjórar skattabreytingar í okkar rekstrar­umhverfi. Ef af verður að færa ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskatts á miðju ári 2018 og lækka svo það þrep í ársbyrjun 2019, þá verða skattbreytingar orðnar sex, þ.e. breyting á hverju ári frá 2015 til 2019.

Þessar breytingar eru:

Innleiðing gistináttagjalds árið 2012.

Árið 2015 breyttist prósenta virðisaukaskatts á t.d. gistingu úr 7% í 11% (og fyrirvarinn var um tvær vikur).

Árið 2016 innleiðing virðisaukaskatts á alla þætti ferðaþjónustu að innanlandsflugi og ferjusiglingum undanskildum.

Árið 2017 hækkun á gistinátta­gjaldi frá 1. september 2017.

Árið 2018 flutningur flestra þátta ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskatts á miðju ári.

Árið 2019 breyting á prósentu virðisaukaskatts.

Allar þessar skattabreytingar, ásamt kostnaðarhækkunum á borð við launahækkanir, skila sér beint út í verð á ferðum okkar sem viljum stunda heiðarleg viðskipti og fara að lögum og reglum.

Það hefur lengi verið um talað að töluvert sé af svartri starfsemi í ferðaþjónustu. Aðilar komist upp með að bjóða þjónustu sína á eigin heimasíðum og erlendum sölusíðum, án þess að vera með tilskilin leyfi og án þess að skila virðisaukaskatti. Ég var ein þeirra sem studdi það að öll ferðaþjónusta færi inn í virðisaukaskattskerfið í ársbyrjun 2016. Vonir stóðu til að þá yrði fastar tekið á leyfislausri starfsemi. Því miður er ekki að sjá nein áform um það, heldur ýtir fyrirhuguð tvöföldun á virðisaukaskatti stórum hluta ferðaþjónustu enn frekar undir muninn á þeirri þjónustu sem seld er „svart“ og þjónustu okkar sem viljum vinna í samræmi við lög. Fyrir erlendan ferðamann sem vafrar um netið og skipuleggur sína Íslandsferð, er það ekki auðgreinanlegt hvaða aðilar skila sínum sköttum og hverjir starfa ólöglega utan íslensks skattkerfis.

Einföldun skattkerfis er nefnt sem rök fyrir tvöföldun virðisaukaskattsins, en þetta verður ekki einföldun fyrir okkar rekstur.

Hefðbundin ferð um Ísland samanstendur af mörgum þjónustuþáttum, bílaleigupakki innifelur til dæmis: bílaleigubíl (nú í 24% vsk.), gistingu (11% vsk.), kvöldverð á veitingahúsi (11% vsk.), innanlandsflug (0% vsk.). Þarna erum við að vinna með þrjú þrep virðisaukaskatts. Eins og fyrirhugaðar breytingar hafa verið kynntar þá verður skattainnheimta okkar eftir 1. júlí 2018: bílaleigubíll (nú í 24% vsk.), gisting (24% vsk.), kvöldverður á veitingahúsi (11% vsk.), innanlandsflug (0% vsk.), áfram þrjú þrep. Í hverju felst einföldunin?

Ég óttast að tvöföldun á virðisaukaskatti á stóran hluta ferðaþjónustunnar geri verðmuninn á ferðum frá löghlýðnum fyrirtækjum og þeim óskráðu og leyfislausu það mikinn að kaup á Íslandsferðum færist nærri öll yfir í skuggahagkerfið og til leyfislausra aðila sem ekki skila sköttum, þar með talið virðisaukaskatti. Lokaútkoman verði minni tekjur ríkisjóðs.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×