Innlent

Haukur skipaður ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis

Atli Ísleifsson skrifar
Haukur Guðmundsson héraðsdómslögmaður.
Haukur Guðmundsson héraðsdómslögmaður. Dómsmálaráðuneytið
Haukur Guðmundsson héraðsdómslögmaður hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis frá 1. júní næstkomandi. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Embættið var auglýst 10. apríl og voru umsækjendur tólf en tveir drógu umsóknir sínar til baka. Í fréttinni segir að þriggja manna hæfnisnefnd hafi farið yfir umsóknirnar og hafi Haukur verið á meðal umsækjenda sem metnir voru hæfir.

„Haukur Guðmundsson lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1996 og aukaeiningum í hagfræði og stjórnmálafræði. Hann hefur réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og hefur einnig lokið fjölda námskeiða á sviði lögfræði.

Haukur hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður frá árinu 2012 og var settur forstjóri Samkeppniseftirlitsins í rúmt ár, frá 2014 til 2015. Þá hefur hann gegnt formennsku í  gjafsóknarnefnd frá 2015 og úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 2012. Haukur hefur einnig sinnt verkefnum fyrir innanríkisráðuneytið um einstök mál tengd stofnanaskipulagi og samstarfi stofnana á sviði útlendingamála og verksviði Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð. Þá starfaði Haukur einnig um árabil hjá dómsmálaráðuneytinu, fyrst árin 1998 til 2001 og aftur 2004 til 2010, að undanskildu einu ári, þegar hann var settur forstjóri Útlendingastofnunar. Hjá dómsmálaráðuneytinu var Haukur m.a. skrifstofustjóri einkamála og borgaraskrifstofu og sinnti þar m.a. kærumálum, stefnumótun og stjórnsýslu á sviði persónuréttar og útlendingamála. Haukur gegndi einnig starfi fulltrúa hjá sýslumanninum í Hafnarfirði um tveggja ára skeið og var aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. Þá var hann sendifulltrúi hjá sendiráði Íslands í Brüssel árin 2001–2004,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×