Íslenski boltinn

Blikakonur skoruðu sex mörk hjá KR og flugu upp í toppsætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikakonur fagna marki.
Blikakonur fagna marki. Vísir/Eyþór
Landsliðskonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu saman fimm mörk í 6-0 stórsigri Breiðabliks á KR í sjöttu umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þrennu en þetta er fyrsta þrennan á tímabilinu í Pepsi-deild kvenna.

Stigin þrjú og stærð sigursins þýða að Blikar komast upp fyrir Þór/KA í toppsæti deildarinnar en norðankonur geta reyndar tekið toppsætið aftur á morgun. Bæði lið eru með fimmtán stig en Blikar eru með fjórum mörkum betri markatölu.

Breiðablik hefur þar með unnið fjóra síðustu leiki sína með markatölunni 14-1 eftir að hafa skorað aðeins eitt mark í fyrstu tveimur leikjum sínum,

Fanndís Friðriksdóttir skoraði tvö mörk í síðasta leik og tvö mörk í kvöld og það munar mikið um það hjá Blikum að þessi landsliðskona sé búin að finna markaskóna sína og hvað þá þegar bæði hún og Berglind Björg eru farnar að raða inn mörkum.

Útlitið er hinsvegar svart hjá Eddu Garðarsdóttur og stelpunum hennar í KR en Vesturbæjarliðið er stigalaust eftir sex leiki og með markatöluna 1-13.

Fanndís Friðriksdóttir skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu strax á annarri mínútu leiksins og svo komu þrjú Blikamörk á sex mínútna kafla frá 29. til 35. mínútu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði annað markið og svo bættu þær Fanndís og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir við mörkum. Andrea Rán er búin að skora í þremur leikjum í röð.

Berglind Björg bætti við öðru marki sínu eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik og kórónaði síðan þrennu sína á 62. mínútu leiksins. Berglind Björg er nú komin með fimm mörk á tímabilinu.

Upplýsingar um markaskorara eru frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×