Íslenski boltinn

Stjörnukonur áfram í stuði en enduðu 10 á móti 11

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir og Donnu Key Henry skoruðu mörk Stjörnuliðsins í Kaplakrika í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir og Donnu Key Henry skoruðu mörk Stjörnuliðsins í Kaplakrika í kvöld. Vísir/Eyþór
Stjarnan minnkaði forskot Þór/KA á toppi Pepsi-deildar kvenna í tvö stig í kvöld eftir 3-1 sigur á FH í Kaplakrika. Öll mörkin komu í fyrri hálfleiknum.

Katrín Ásbjörnsdóttir, markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna, skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld og er þar með kominn með átta mörk í sumar. Hún hefur skorað í öllum sex leikjum Stjörnuliðsins síðan að hún tók fyrir fyrirliðabandinu.

Stjörnukonur hafa þar með skorað 18 mörk í fyrstu sex leikjum sínum eða 3,0 mörk að meðaltali og það þrátt fyrir að markadrottning liðsins, Harpa Þorsteinsdóttir, sér enn í barnseignarfríi. Stjörnuliðið hefur nú unnið þrjá síðustu leiki sína með markatölunni 10-3.

Katrín Ásbjörnsdóttir kom Stjörnunni í 1-0 á 29. mínútu með skalla af stuttu færi en Caroline Murray jafnaði fyrir FH aðeins tveimur mínútum síðar eftir sendingu frá Helena Ósk Hálfdánardóttur.

Það var allt að gerast á þessum mínútum því Donnu Key Henry fiskaði víti á 33. mínútu og Katrín Ásbjörnsdóttir kom Stjörnunni aftur yfir.

Staðan varð síðan orðin 3-1 á 41. mínútu þegar Donna Key Henry skoraði eftir stungusendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Stjörnukonur enduðu leikinn tíu á móti ellefu eftir að Ana Victoria Cate fékk beint rautt spjald á 81. mínútu. Cate verður því í leikbanni í toppslagnum á móti Þór/KA á mánudagskvöldið.

FH-liðið vann þrjá leiki í röð í upphafi móts og hafði ekki byrjað betur í fjóra áratugi en Hafnarfjarðarliðið hefur nú tapað tveimur síðustu leikjum sínum ÍBV og Stjörnunni.

Upplýsingar um markaskor og gang leiksins eru fengnar frá fótbolti.net.


Tengdar fréttir

Þroskandi að vera fyrirliði

Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, hefur byrjað tímabilið frábærlega og er markahæst í Pepsi-deild kvenna með sex mörk. Katrín er laus við meiðsli og setur stefnuna á að komast í íslenska EM-hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×