Lífið

Mest í því sem er frekar fljótlegt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Helena hefur haft gaman af matargerð og bakstri frá því hún man eftir sér fyrst.
Helena hefur haft gaman af matargerð og bakstri frá því hún man eftir sér fyrst. Vísir/Ernir
Frá því ég man eftir mér hef ég haft gaman af að elda og baka. Það er enn fyrst og fremst áhugamál því ég er í fullu starfi við annað en tek líka aðeins að mér verkefni sem snúa að matargerð. Það er góð hvíld frá hinni vinnunni en hvort tveggja er skemmtilegt,“ segir Helena Gunnarsdóttir, verkefnastjóri í Háskóla Íslands.

„Ég elda alltaf eitthvað sem mig langar í sjálfa. Eitt af því er þetta sumarlega kjúklingasalat með bragðmikilli hunangs/chili-dressingu sem er bæði marinering og sósan yfir salatið,“ segir Helena. „Súkkulaðikakan er líka klassísk og algert uppáhald á mínu heimili.“

Upplagt er að marinera kjúklingabringurnar og eiga þær tilbúnar í ísskáp til að henda á grillið, að mati Helenu. „Þær kólna svo meðan maður græjar salatið,“ bendir hún á. „Heimagerðu brauðteningarnir úr súrdeigsbrauðinu eru algert möst, steiktir upp úr smjöri. Ég er mest í því sem er svolítið fljótlegt, hef ekkert rosa mikla þolinmæði og vil að hlutirnir gangi hratt.“

Helena hefur verið með matarbloggið eldhúsperlur.com frá árinu 2012 en segir hafa heldur dregið úr virkninni þar eftir að hún fór að vinna meira utan heimilis. „Ég er aðeins að elda fyrir Gott í matinn.is og sjá um matarþátt fyrir tímarit. En matarbloggið var byrjunin.“





Þetta girnilega salat ber sumarið í hús og best er að snæða það um leið og það er komið á borð. Fréttablaðið/ErnirVísir/Ernir
Hunangs/chili kjúklingasalat

fyrir 2–3

Marinering og sósa

½ dl hunang

½ dl dijon-sinnep

½ dl ólífuolía

2-3 tsk. chili-mauk (t.d. sambal oelek) eða 1 rauður hakkaður chili

1 tsk. sjávarsalt

Safi úr einni límónu

2 kjúklingabringur

Brauðteningar

2 vænar sneiðar súrdeigsbrauð

3 msk. smjör og 1 msk. ólífuolía

Salt og pipar

Salat

Einn poki salatblanda eða annað salat eftir smekk

1 mangó

1 lárpera

Kirsuberjatómatar

Fetaostur

Pískið saman allt sem fer í marineringuna. Leggið kjúklingabringurnar á disk, takið fjórar matskeiðar af sósunni og hellið yfir bringurnar. Látið marinerast í ísskáp í tvær klukkustundir eða á borði í 30 mínútur. Geymið restina af sósunni til að hella yfir salatið.

Rífið brauðið í litla teninga. Bræðið smjörið á pönnu og hitið ásamt ólífuolíunni. Steikið brauðteningana þar til þeir eru stökkir og kryddið með salti og pipar. Færið þá yfir á disk með eldhúspappír og látið bíða.

Steikið eða grillið kjúklingabringurnar þar til þær eru eldaðar í gegn. Skerið allt sem á að fara í salatið niður og leggið á stórt fat. Sneiðið að lokum kjúklinginn í þunnar sneiðar, dreifið brauðteningunum yfir ásamt fetaosti og hellið sósu eftir smekk yfir allt saman. Berið fram strax.





Hveitilausa súkkulaðikakan sligast undan gómsætum berjunum.Vísir/Ernir
 Hveitilaus súkkulaðikaka

250 g dökkt súkkulaði

150 g smjör

1 tsk. vanilluextrakt

1/4 tsk. salt

2 dl sykur (skipt í tvennt)

6 egg (2 heil, 4 eggjarauður og hvítur aðskilið)

Hitið ofn í 180 gráður (160 með blæstri). Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita, takið það af eldinum, bætið salti og vanillu saman við og látið það kólna aðeins.

Þeytið fjórar eggjahvítur ásamt einum dl af sykri í skál þar til þær eru stífþeyttar. Setjið tvö heil egg og fjórar eggjarauður í aðra skál ásamt 1 dl af sykri og þeytið vel.

Hellið brædda súkkulaðinu saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel. Bætið svo eggjahvítunum varlega saman við og hrærið hægt og rólega með sleif eða sleikju.

Hellið deiginu í ósmurt 24 cm lausbotna smelluform og bakið í 40 mínútur. Kælið í minnst klukkustund áður en þið fjarlægið hringinn varlega af smelluforminu. Gott er að renna hníf meðfram hliðunum á forminu. Toppurinn á kökunni á að vera svolítið sprunginn. Skreytið kökuna með ferskum berjumog berið fram með þeyttum rjóma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×