Íslenski boltinn

Besta byrjun FH-kvenna í fjóra áratugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-konur fagna hér einu af sjö mörkum FH-liðsins í sumar.
FH-konur fagna hér einu af sjö mörkum FH-liðsins í sumar. vísir/anton
FH hefur unnið þrjá síðustu leiki sína í Pepsi-deild kvenna og er í þriðja sæti deildarinnar eftir fjóra leiki. Þetta er besta byrjun kvennaliðs FH í rúma fjóra áratugi.

FH hefur aldrei fengið fleiri stig (9) í fyrstu fjórum leikjunum í efstu deild kvenna síðan þriggja stiga reglan var tekin upp 1984.

FH-liðið byrjaði einnig vel í fyrra og var þá í fjórða sæti á sama tíma með tvo sigra og 7 stig. FH-stelpurnar eru hins vegar búnar að skora fimm fleiri mörk í sumar en á sama tíma í fyrra og vinna einum leik meira.

Eftir naumt tap á móti Blikum á útivelli í fyrsta leik (0-1) hefur FH-liðið unnið Fylki (2-0), Hauka (3-0) og KR (2-1). Þetta eru þrjú neðstu lið deildarinnar og FH á því enn eftir að ná í stig á móti betri liðum deildarinnar.

Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1976 til að finna tímabil í efstu deild þar sem kvennalið FH vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum. Þetta tímabil fyrir 41 ári er einmitt síðasta tímabilið þar sem FH-konur urðu Íslandsmeistarar. FH varð fjórum sinnum Íslandsmeistari á árunum 1972 til 1976.

FH-liðið er skemmtileg blanda af ungum heimastúlkum og sterkum erlendum leikmönnum og á það sameiginlegt með toppliði Þórs/KA.

Hin sextán ára gamla Guðný Árnadóttir er markahæst hjá FH-liðinu með tvö mörk en þau hafa bæði komið með skoti beint úr aukaspyrnu. Hin fimmtán ára gamla Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur síðan komið að fjórum mörkum FH-liðsins í sumar með því að skora (1), gefa stoðsendingu (1) eða eiga þátt í undirbúningi (2).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×