Íslenski boltinn

Besta byrjun FH-kvenna í fjóra áratugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-konur fagna hér einu af sjö mörkum FH-liðsins í sumar.
FH-konur fagna hér einu af sjö mörkum FH-liðsins í sumar. vísir/anton

FH hefur unnið þrjá síðustu leiki sína í Pepsi-deild kvenna og er í þriðja sæti deildarinnar eftir fjóra leiki. Þetta er besta byrjun kvennaliðs FH í rúma fjóra áratugi.

FH hefur aldrei fengið fleiri stig (9) í fyrstu fjórum leikjunum í efstu deild kvenna síðan þriggja stiga reglan var tekin upp 1984.

FH-liðið byrjaði einnig vel í fyrra og var þá í fjórða sæti á sama tíma með tvo sigra og 7 stig. FH-stelpurnar eru hins vegar búnar að skora fimm fleiri mörk í sumar en á sama tíma í fyrra og vinna einum leik meira.

Eftir naumt tap á móti Blikum á útivelli í fyrsta leik (0-1) hefur FH-liðið unnið Fylki (2-0), Hauka (3-0) og KR (2-1). Þetta eru þrjú neðstu lið deildarinnar og FH á því enn eftir að ná í stig á móti betri liðum deildarinnar.

Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1976 til að finna tímabil í efstu deild þar sem kvennalið FH vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum. Þetta tímabil fyrir 41 ári er einmitt síðasta tímabilið þar sem FH-konur urðu Íslandsmeistarar. FH varð fjórum sinnum Íslandsmeistari á árunum 1972 til 1976.

FH-liðið er skemmtileg blanda af ungum heimastúlkum og sterkum erlendum leikmönnum og á það sameiginlegt með toppliði Þórs/KA.

Hin sextán ára gamla Guðný Árnadóttir er markahæst hjá FH-liðinu með tvö mörk en þau hafa bæði komið með skoti beint úr aukaspyrnu. Hin fimmtán ára gamla Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur síðan komið að fjórum mörkum FH-liðsins í sumar með því að skora (1), gefa stoðsendingu (1) eða eiga þátt í undirbúningi (2).Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira