Gagnrýni

Kötturinn í sekknum

Jónas Sen skrifar
Stórsveit Reykjavíkur flutti nýja íslenska tónlist undir stjórn Snorra Sigurðarsonar á mánudagskvöldið.
Stórsveit Reykjavíkur flutti nýja íslenska tónlist undir stjórn Snorra Sigurðarsonar á mánudagskvöldið.
Tónlist

Stórsveit Reykjavíkur flutti nýja íslenska tónlist. Stjórnandi: Snorri Sigurðarson.

Kaldalón í Hörpu

mánudaginn 15. maí

Einu sinni sá ég Gísla Martein taka viðtal við Atla Heimi Sveinsson tónskáld. Gísli Marteinn sagði að hann og annað venjulegt fólk skildi ekki tónlist Atla. Atli spurði hann þá hvort hann hefði einhvern tímann komið á tónleika með tónlist sinni. Gísli Marteinn svaraði því neitandi.

Þetta var nokkuð undarlegt, því er ekki að neita. Gísla Marteini er þó vorkunn. Ný tónlist í akademíska geiranum var lengi vel litin hornauga, enda komu fáir á slíka tónleika. Tónlistargagnrýnandinn Henry Pleasants (1910-2000) skrifaði á sínum tíma bók sem heitir Serious Music and All That Jazz. Þar hélt hann því fram að djassinn væri rökrétt framhald af sígildri tónlist 19. aldarinnar. Miklu rökréttari en tilraunir til að þróa nýtt tónlistartungumál á borð við það sem Gísli Marteinn skilur ekki.

Djassinn er áberandi á Íslandi og á slíkum tónleikum eru ekki bara spilaðir þekktir standardar. Þeir eru líka vettvangur fyrir nýsköpun. Gott dæmi eru hinir árlegu tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur þar sem frumflutt er ný tónlist. Að þessu sinni voru þeir haldnir í Kaldalóni á mánudagskvöldið. Snorri Sigurðarson stjórnaði og á dagskránni voru nokkur lög eftir hann sjálfan meðal annarra. Þau voru öll skemmtileg, lífleg og flæðandi.

Sérstaka athygli vakti lagið Kötturinn í sekknum. Snorri sagði að það hefði verið samið eftir að nemandi hans (hann kennir á trompet) sýndi honum tónstiga sem væri ættaður frá franska tónskáldinu Messiaen. Tónlist Messiaens byggir á annars konar reglum en þekktastar eru í dag, og tónstigarnir hans eru dálítið spúkí. Lag Snorra var snilld. Það var skemmtilega annarlegt og fullt af drifkrafti. Andstæður áleitinna málmblásturshendinga og glitrandi píanóhljóma voru einkar áhrifaríkar. Hvílík fegurð!

Anna Gréta Sigurðardóttir átti líka tvö flott lög á tónleikunum. Hið síðara var sérstaklega glæsilegt, það var margbreytilegt og spannaði vítt svið, allt frá innhverfri, ísmeygilegri stemningu upp í ofsafenginn hápunkt.

Lög eftir Hauk Gröndal og Kjartan Valdimarsson voru rólegri, laglínurnar kannski ekkert það grípandi, en þar voru samt ótal blæbrigði sem sköpuðu mikla stemningu.

Hljóðfæraleikurinn á tónleikunum var til fyrirmyndar ef frá er talið býsna falskur málmblástur í fyrstu tveimur lögunum. Hljómsveitin var greinilega ekki komin í gang þá. Óþarfi er að telja upp alla einleikarana, sem voru margir og aldrei sá sami, en þeir léku ávallt fallega og af nostursemi. Þetta voru magnaðir tónleikar og frábært dæmi um þá miklu grósku sem ríkir í djassinum um þessar mundir. 

Niðurstaða: Líflegir tónleikar með spennandi nýrri tónlist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×