Innlent

Þriggja manna leitað sem gengu í skrokk á manni á Grensásvegi fyrir að svína fyrir sig

Birgir Olgeirsson skrifar
Einn árásarmannanna er talinn hafa notað verkfæri sem líktist kúbeini við árásina.
Einn árásarmannanna er talinn hafa notað verkfæri sem líktist kúbeini við árásina. Vísir/Hari
Þrír karlmenn eru grunaðir um að hafa gengið í skrokk á öðrum manni á Grensásvegi um klukkan hálf eitt í nótt. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að grunur sé um að einn árásarmannanna hafi notað verkfæri sem líktist kúbeini við árásina, en mennirnir eru sagðir hafa ráðist á manninn vegna þess að hann hafði skömmu áður svínað fyrir bíl þeirra.

Greint var fyrst frá átökunum á Grensásvegi á vef DV.

Lögreglan segir mennina þrjá hafa veitt manninum eftirför á bíl sínum eftir að hann hafði, að því er þeir töldu, svínað fyrir þá á bíl sínum. Þegar maðurinn sem fyrir árásinni varð stöðvaði bíl sinn á rauðu ljósi á Grensásvegi, stukku mennirnir þrír úr bíl sínum og réðust á manninn.

Lögreglan segir manninn sem fyrir árásinni varð hafa verið blóðugan og sáran en ekki alvarlega slasaðan.

Leit hófst að mönnum þremur eftir að árásin hafði verið tilkynnt til lögreglu. Seinna um nóttina stöðvaði lögregla bíl á Breiðholtsbraut, en lögreglan fékk ekki staðfestingu á því að þetta væru mennirnir þrír sem leitað var að.

Lögreglan hefur í dag fengið upptöku úr eftirlitsmyndavél á Grensásvegi og veit því hverjir mennirnir þrír eru og ætlar að hafa upp á þeim sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×