Íslenski boltinn

Valsmenn með bikarsigra í öllum landshlutum síðustu þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmaðurinn Sigurður Egill Lárusson.
Valsmaðurinn Sigurður Egill Lárusson. Vísir/Eyþór

Bikarmeistarar síðustu tveggja ára í Val eru komnir áfram í sextán liða úrslit Borgunarbikars karla 2017 eftir sigur á Víkingi í Ólafsvík í gærkvöldi.

Með þessum sigri á Ólafsvíkurvelli í gærkvöldi hafa Valsmenn náð því að vinna bikarsigra í öllum landshlutum undanfarin þrjú tímabil.

Það var Andri Adolphsson sem skoraði sigurmark Valsmanna í gær en það kom rétt fyrir hálfleik eftir sendingu frá Bjarna Ólafi Eiríkssyni.

Valsliðið hafði áður unnið bikarleik á Suðurlandi, á Austurlandi, á Norðurlandi og svo nokkra bikarsigra á höfuðborgarsvæðinu.

Níu af ellefu bikarsigrum Valsmanna á þessum þremur árum hafa komið utan Hlíðarenda þar af tveir þeirra í bikarúrslitum á Laugardalsvellinum.

Þetta er líka þriðja árið í röð sem Valsmenn slá Víkingslið út úr bikarkeppninni en síðustu tvö árin hafði Valsliðið reyndar endar bikarsumarið hjá Reykjavíkur-Víkingum.Útisigrar Valsmanna í bikarkeppninni 2015-2017:

Vesturland
1-0 sigur á móti Víkingi Ó. í Ólafsvík í 32 liða úrslitum 2017

Suðurland
2-1 sigur á móti Selfossi á Selfossi í undanúrslitum 2016

Norðurland
5-4 sigur í vítakeppni á móti KA á Akureyri í undanúrslitum 2015

Austurland
4-0 sigur á móti Fjarðabyggð á Reyðarfirði í 16 liða úrslitum 2015

Höfuðborgarsvæðið
2-1 sigur á móti Víkingi R. í Fossvogi í Reykjavík í 8 liða úrslitum 2015
2-0 sigur á móti KR í Laugardalnum í Reykjavík í bikarúrslitum 2015
1-0 sigur á móti Fjölni í Grafarvogi í Reykjavík í 32 liða úrslitum 2016
3-2 sigur á móti Víkingi R. í Fossvogi í Reykjavík í 16 liða úrslitum 2016
2-0 sigur á móti ÍBV í Laugardalnum í Reykjavík í bikarúrslitum 2016

- Valsmenn hafa einnig unnið tvo heimasigra í bikarnum á þessum tíma, 4-0 á móti Selfossi í 32 liða úrslitum 2015 og 5-0 á móti Fylki í átta liða úrslitum 2016.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira