Enski boltinn

Stórbrotið sigurmark hjá Emre Can gulls ígildi fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emre Can fagnar frábæru marki sínu.
Emre Can fagnar frábæru marki sínu. vísir/getty
Þjóðverjinn Emre Can skoraði frábært mark fyrir Liverpool í kvöld og markið tryggði liðinu afar mikilvæg þrjú stig í baráttu um sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Liverpool vann þá 1-0 útisigur á Watford en Liverpool sluppu meðal annars með skrekkinn í lokin þegar Watford-menn áttu skot í slá í uppbótartíma.

Liverpool er þar með komið með 69 stig í þriðja sæti deildarinnar og nýtt sér það vel að Manchester City, Manchester United og Arsenal töpuðu öll stigum um helgina.

Fyrri hálfleikurinn var ekki tíðindamikill fyrir utan það að bæði lið missti menn meidda af velli. Það var sárt fyrir Liverpool-menn að sjá Brasilíumanninn Philippe Coutinho meiðast strax á 4. mínútu eftir að hafa fengið högg á lærið.

Liverpool átti hinsvegar lokaorðið í hálfleiknum þegar Emre Can stakk sér inn í teiginn og skoraði stórkostlegt mark.

Emre Can skoraði með hjólhestaspyrnu eftir sendingu frá Lucas. Boltinn lá efst í markhorninu óverjandi fyrir Heurelho Gomes í marki Watford. Þetta er án efa eitt af mörkum ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fékk tækifæri til að bæta við mörkum en án árangurs. Eftir því sem leið á hálfleikinn þá komust heimamenn meira inn í leikinn.

Liverpool fékk vissulega færi til að gera út um leikinn en Serbastian Prödl komst samt næst því að skora þegar hann skaut í slána í uppbótartíma.

Hér fyrir neðan má lesa beina textalýsingu frá gangi mála. Ýta þarf á F5 til að endurhlaða lýsinguna.

Leik lokið: Liverpool vinnur mikilvægan sigur og styrkir stöðu sína í þriðja sætinu.

90. +4 mín: Prödl á skot í slána en Liverpool menn sleppa heldur betur með skrekkinn.

90. mín: Daniel Sturridge minnir aðeins á sig en skot hans leikur framhjá markinu eftir að Heurelho Gomes gerði enn á ný vel í markinu.

88. mín: Joel Matip kominn fram og á skot sem Heurelho Gomes ver.

83.mín: Daryl Janmaat á ágætt skot sem Simon Mignolet ver í markinu. Það fer að styttast í jöfnunarmark með sama áframhaldi.

80. mín: Lokamínúturnar framundan og það lítur út fyrir að Liverpool ætli bara að einbeita sér að því að verja þessa eins marks forystu.

70. mín: Watford er að koma meira inn í leikinn. Liverpool má passa sig ef þeir ætla í burtu með öll þrjú stigin.

68. mín: Etienne Capoue með flott skot sem Simon Mignolet ver vel í marki Liverpool. Þarna mátti ekki miklu muna.

53. mín: Liverpool ætlar að ná öðru marki strax. Heurelho Gomes bjargar vel eftir fínt skot frá Origi. Liverpool-liðið hefur byrjað seinni hálfleikinn vel.

Seinni hálfleikur hafinn: Liverpool byrjar með boltann. Geta menn þar á bæ fylgt eftir draumaendinum á fyrri hálfleiknum.

Hálfleikur: Liverpool er 1-0 yfir í hálfleik þökk sé þessu frábæra marki frá Emre Can. Fyrri hálfleikurinn hefur ekki boðið upp á mikla skemmtun en þetta frábæra mark kemur til greina sem eitt af mörkum ársins.

45. +2 mín: Watford-Liverpool 0-1: Emre Can skorar frábært mark með hjólhestaspyrnu úr teignum eftir fyrirfgjöf frá Lucas. Frábært mark á frábærum tíma.

43. mín: Lucas fær gult spjald fyrir að reyna að fiska víti. Réttur dómur en þessi dómari sér leikinn ekki alveg eins og sá sem dæmdi á Old Trafford í gær.

41. mín: Adam Lallana tekur boltann viðstöðulaust á lofti fyrir utan teig eftir Gomes sló hornspyrnu frá. Boltinn smellur í slánni. Frábært skot en heppnin ekki með enska landsliðsmanninum.

22. mín: Emre Can á fyrsta skotið á markið en Heurelho Gomes varði vel frá honum. Liverpool er að taka völdin í leiknum.

20. mín: Þetta byrjar allt saman frekar rólega nema það að tveir leikmenn eru þegar farnir meiddir af velli. Fyrst Philippe Coutinho hjá Liverpool og svo Miguel Britos hjá Watford.

13. mín: Philippe Coutinho fer meiddur af velli og Adam Lallana kemur inná fyrir hann. Stutt gaman hjá Brasilíumanninum en Liverpool er allavega komið með fullt lið aftur því Coutinho hafði bara haltrað um völlinn í tæpar tíu mínútur.

7. mín: Philippe Coutinho ræðir við Jurgen Klopp á hliðarlínunni og það er ekkert í stöðunni annað en að taka hann af velli. Adam Lallana kemur örugglega inná fyrir hann fljótlega.

4. mín: Philippe Coutinho fær slæmt högg á lærið og liggur eftir. Þetta lítur ekki alltof vel út. Coutinho er draghaltur þegar hann er studdur af velli.

19.00: Leikurinn hafinn og það eru leikmennn Watford sem byrja með boltann á heimavelli sínum. 

18.15: Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, stillir upp sama byrjunarliðið og tapaði á móti Crystal Palace í síðasta leik. Það þýðir að Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Lucas, Can, Wijnaldum, Coutinho, Firmino og Origi byrja leikinn í kvöld.













18.15: Þetta var góður sunnudagur fyrir Liverpool og nú er spurning hvort Liverpool-menn nýti sér það. Manchester City og Manchester United töpuðu bæði stigum á móti liðum í fallbaráttu og Arsenal tapaði sínum leik.

18.14: „Þetta er mjög mikilvægur leikur,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á blaðamannafundi fyrir leikinn og það er hægt að taka undir það.

18:13: Fimm af sex tapleikjum Liverpool á tímabilinu hafa komið á móti liðum sem eru í neðri hluta deildarinnar eða Crystal Palace, Leicester, Burnley, Hull og Swansea.

18.13: Philippe Coutinho hefur verið sjóðheitur í síðustu leikjum Liverpool en Brasilíumaðurinn hefur skorað 4 mörk í síðustu 5 leikjum.

18.13: Landi hans Roberto Firmino hefur einnig fundið sig vel á móti Watford en hann er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í síðustu 2 leikjum sínum á móti Watford sem voru reyndar báðir á Anfield.

18.11: Watford spilar síðan næstu þrjá leiki sína á útivelli þar sem liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð og þetta er ennfremur næstsíðasta heimaleikur liðsins á leiktíðinni.

18.10: Liverpool vann fyrri leik liðanna 6-1 á Anfield í nóvemberbyrjun þar sem liðið var 3-0 yfir í hálfleik og komst í 5-0 eftir klukkutíma leik. Sadio Mané skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í leiknum.

18.09: Watford á möguleika á því að vinna fjórða heimaleikinn sinn í röð í kvöld en því hefur liðið ekki náð síðan í desember 1986. Watford menn geta einnig haldið hreinu í fjórða heimaleiknum í röð.

18.08: Liverpool hefur haft ágætt tak á Watford-liðinu sem sést að liðið hefur unnið 10 af síðustu 12 leikjum liðanna í öllum keppnum.

18.06: Liverpool (3. sæti) er tíu sætum og 26 stigum ofar en Watford (13. sæti) í töflunni en Watford-liðið á inni einn leik á Liverpool.

18.05: Liverpool tapaði fyrir Crystal Palace í síðasta leik sínum en var þá búið að spila sjö leiki í röð án þess að tapa (5 sigrar og 2 jafntefli).

18:00: Góða kvöldið og velkomin til leiks! Lokaleikur 35. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar er á milli Watford og Liverpool á Vicarage Road og við munum fylgjast með því helsta sem gerist.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×