Skoðun

Skortur á súrefni fyrir sjúklinga – erum við að kafna í góðærinu?

Ólafur Baldursson skrifar
Súrefni er lífsnauðsynlegt. Það fyllir 21% andrúmsloftsins og líf okkar er háð því að lungun skili því nægilega vel út í blóðrásina. Hjarta- og æðakerfi sjá síðan um að flytja hið súrefnisríka blóð til líffæranna, sem eiga það sameiginlegt að geta ekki starfað nema fá til sín súrefni með þessum hætti.

Mörg líffæri þola súrefnisskort aðeins í nokkrar mínútur og verða þá fyrir varanlegum skemmdum. Slíkar skemmdir í hjarta og heila geta leitt til skyndidauða. Vægur súrefnisskortur er hins vegar lúmskari því margir þola hann í skamman tíma án nokkurra einkenna, en standi hann í mánuði eða ár, truflar hann smám saman starfsemi líffæra, ekki síst hjartans. Slík hjartabilun hefur áhrif á önnur líffæri, sem þreytast vegna skorts á blóðflæði og súrefni, og lífslíkur versna. Þrátt fyrir að þetta séu gömul sannindi, þá gengur ekki nægilega vel að tryggja þeim sem lifa við súrefnisskort viðeigandi súrefnisbúnað á því herrans ári 2017.

Langvinnir lungnasjúkdómar eru algengasta ástæðan fyrir hægfara súrefnisskorti af þessu tagi. Við þær aðstæður þarf að gefa súrefni samfellt í a.m.k. 15 klst. á hverjum sólarhring, það bætir lífsgæði og lengir líf. Öðrum nægir súrefnismeðferð eingöngu að næturlagi, og enn öðrum eingöngu við áreynslu. Strangar reglur gilda um skömmtun súrefnis, uppfylla þarf skilyrði ákveðinna mælinga til þess að fá það afhent, enda er kostnaður við súrefniskaup talsverður og eldhætta veruleg.

Árið 2016 þurftu 536 manns á langvinnri súrefnismeðferð að halda, konur voru í meirihluta og búsetan um allt land. Þjónustan við þennan hóp er almennt góð en það vantar mikið upp á framboð á hreyfanlegum súrefnisbúnaði. Gera má ráð fyrir að um 200 manns geti verið á ferðinni þrátt fyrir sjúkdóminn og fyrir þann hóp er hreyfing snar þáttur í meðferðinni, að ekki sé minnst á mikilvægi þess að brjótast út úr félagslegri einangrun. Því miður þurfa of margir að sætta sig við óhentuga og óþægilega kúta í stað þess að fá viðeigandi ferða-súrefnissíur, en aðeins 70 slíkar eru í boði. Það vantar því um 130 tæki til þess að fylla þörfina.

Brýnt er að bjóða sjúklingum sem glíma við langvinnan súrefnisskort eins þægilegan súrefnisbúnað og kostur er, það eru sjálfsögð réttindi. Búnaðurinn er fáanlegur, en svo virðist sem vandinn liggi hjá stjórnsýslu heilbrigðisþjónustunnar. Ég hvet til þess að þeir aðilar innan stjórnsýslunnar sem eiga hlut að máli, taki höndum saman og bæti úr þessum vanda án tafar. Fylgst verður grannt með framvindu málsins, enda er um grundvallar-heilbrigðisþjónustu að ræða. Framvindan verður ágæt vísbending um hvort hér ríki raunverulegt góðæri, eða bara sama gamla „gróðærið“ og fyrir hrun.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×