Innlent

Bjarni braut jafnréttislög

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. vísir/ernir
Bjarni Benediktsson braut jafnréttislög í störfum sínum sem fjármálaráðherra þegar hann skipaði karl í starf skrifstofustjóra ráðuneytisins, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Kona sem taldi sig jafn hæfa manninum kærði ráðninguna til nefndarinnar, sem komst að fyrrnefndri niðurstöðu í gær.

Starfið var auglýst í júní síðastliðnum en helstu verkefni þess er yfirumsjón með gerð fjármálastefnu og árlegrar fjármálaáætlunar fyrir hið opinbera og að hafa forystu um undirbúning frumvarps til fjárlaga í samræmi við ný lög um opinber fjármál.

Þrettán umsóknir bárust og var ákveðið að kalla fjóra umsækjendur í viðtöl; eina konu og þrjá karla. Að þeim viðtölum loknum voru þeir tveir umsækjendur sem skorað höfðu hæst samkvæmt mati hæfnisnefndar boðaðir í viðtal hjá Bjarna. Um var að ræða manninn sem fékk starfið og konuna sem kærði ráðninguna. Hæfnisnefndin hafði þá metið konuna í það minnsta jafn hæfa og karlinn í starfið.

Kærunefndin taldi að umrædd viðtöl hefðu ekki verið til þess fallin að leiða í ljós að karlmaðurinn hafi verið hæfari til að gegna embættinu en konan. Þá hafi kynjahlutföll í embættum skrifstofustjóra fjármálaráðuneytisins verið konum í óhag.

Björn Þór Hermannsson var skipaður í starfið 31. ágúst 2016. Hann hefur starfað í fjármálaráðuneytinu frá árinu 2011 og hafði frá árinu 2014 verið staðgengill skrifstofustjóra.

Lesa má úrskurðinn í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×