Erlent

Framboð Macrons fordæmir gríðar mikinn leka úr herbúðum frambjóðandans

Birgir Olgeirsson skrifar
Ekki er vitað hver ber ábyrgð á þessum leka.
Ekki er vitað hver ber ábyrgð á þessum leka. Vísir/Getty
Franski forsetaframbjóðandinn Emmanuel Macron segist vera fórnarlamb stórtækra tölvuhakkara eftir að fjöldi skjala voru sett á Netið sem varða frambjóðandann.

Greint er frá því á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC að um sé að ræða ósvikin skjöl sem blandað hafi verið við fölsuð skjöl til að rugla kjósendur.

Framboð Macrons hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hakkararnir eru sakaðir um að vilja grafa undan framboði hans fyrir seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi á sunnudag.

Þar mætir Macron forsetaframbjóðandanum Marine Le Pen.

Á vef CNBC kemur fram að um sé að ræða níu gígabæt af skjölum sem varða tölvupóstsamskipti Macrons  en lekinn er kallaður EMLEAKS. Var hann birtur á vefnum Pastebin sem hýsir nafnlausar birtingar.

Ekki er vitað hver ber ábyrgð á þessum leka.

Framboð Macrons segist ekki hafa áhyggjur af þessum leka þar sem skjölin sýna aðeins daglegt amstur forsetaframbjóðanda. 

Framboðið segir hakkarana hafa náð skjölunum fyrir nokkrum vikum, en auk tölvupóstsamskipta innihalda þau einnig gögn um útgjöld framboðsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×