Lífið

Blek sem eyðist á sex mánuðum gæti sparað tíma og peninga

Guðný Hrönn skrifar
Þau Unnur Sigrún Þorbjargardóttir, Díana Dögg Sigurðardóttir, Berglind Jónsdóttir, Embla Ósk Þórðardóttir, Ásgerður Steinþórsdóttir og Finn Axel Hansen eiga hugmyndina að yfirstrikunarpennanum sem inniheldur blek sem eyðist eftir sex mánuði. Á myndina vantar Finn og Ásgerði.
Þau Unnur Sigrún Þorbjargardóttir, Díana Dögg Sigurðardóttir, Berglind Jónsdóttir, Embla Ósk Þórðardóttir, Ásgerður Steinþórsdóttir og Finn Axel Hansen eiga hugmyndina að yfirstrikunarpennanum sem inniheldur blek sem eyðist eftir sex mánuði. Á myndina vantar Finn og Ásgerði. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Þessa dagana stendur yfir námskeið í nýsköpun og stofnun fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík og í kúrsinum fékk sex manna hópur þá góðu hugmynd að hanna yfirstrikunarpenna með bleki sem eyðist á um sex mánuðum.

„Við leggjum áherslu á umhverfisvernd með betri nýtingu námsbókanna og þessi penni auðveldar námsmönnum að selja bækurnar aftur,“ segir Unnur Sigrún Þorbjargardóttir, ein af meðlimum hópsins sem er að þróa yfirstrikunarpennann. „Það er oft erfitt að skila bókum á skiptibókamarkað ef maður er búinn að glósa í bókina yfir veturinn. Einnig eru margir sem sleppa því að glósa í bækurnar vegna þess að þeir vilja geta selt þær,“ segir Unnur sem stundar nám í lögfræði en með henni í hópnum eru nemendur í heilbrigðisverkfræði, rekstrarverkfræði og viðskiptafræði.

„Það hjálpar mikið að við komum öll úr ólíkum deildum skólans sem er mjög gagnlegt þegar að kemur að því að skipta niður verkum og hver og einn nýtir sína þekkingu til hins ýtrasta.“

Margir hafa sýnt áhuga
Það getur verið erfitt að selja bækur aftur ef búið er að nota yfirstrikunarpenna í þær.NORDICPHOTOS/GETTY
„Við erum búin að tala við efnafræðing og vitum að þetta er hægt og það er mikill áhugi fyrir pennanum, bæði hjá nemendum og fyrirtækjum sem við höfum haft samband við,“ útskýrir Unnur sem segir hugmyndina hafa fengið afar jákvæð viðbrögð.

Unnur er viss um að ef hópnum tækist að koma pennanum á markað myndi hann slá í gegn.

„Já, hann myndi spara nemendum bæði peninga og vinnu. Einnig myndi hann stuðla að betri nýtingu og verndun umhverfisins.“

Spurð út í næstu skref segir Unnur: „Draumur okkar er að láta þetta verða að veruleika en núna einbeitum við okkur að því að klára námskeiðið og skoðum svo möguleikana á að láta þetta verða að möguleika eftir námskeiðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×