Enski boltinn

Skorandi miðvörðurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cahill fagnar með Antonio Conte, knattspyrnustjóra Chelsea.
Cahill fagnar með Antonio Conte, knattspyrnustjóra Chelsea. vísir/getty
Gary Cahill átti skínandi góðan leik þegar Chelsea bar sigurorð af Everton, 0-3, á Goodison Park í gær. Chelsea er því áfram með fjögurra stiga forskot á Tottenham á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Cahill var sterkur í vörninni og var auk þess á skotskónum. Pedro kom Chelsea yfir með glæsilegu marki á 66. mínútu. Á 79. mínútu var röðin svo komin að Cahill sem skoraði með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Edens Hazard. Willian kláraði svo dæmið fjórum mínútum fyrir leikslok.

Cahill skoraði einnig í 4-2 sigrinum á Southampton á þriðjudaginn og er alls kominn með sex mörk á tímabilinu. Cahill er alltaf duglegur að skora og hefur gert 27 mörk í 317 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. John Terry, samherji Cahills hjá Chelsea, er eini varnarmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur skorað meira (ef mörk úr vítaspyrnum eru dregin frá) en Cahill.

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum:

Stærstu úrslitin

Tottenham vann 2-0 sigur á Arsenal í síðasta Norður-Lundúnaslagnum á White Hart Lane. Þessi úrslit tryggja það að Tottenham endar fyrir ofan Arsenal í fyrsta sinn í 22 ár. Sigurinn var líka nauðsynlegur til að halda spennu í toppbaráttunni en Spurs er áfram fjórum stigum á eftir Chelsea.

Hvað kom á óvart?

Burnley tók upp á því að vinna útileik í fyrsta sinn á tímabilinu þegar liðið bar sigurorð af Crystal Palace á Selhurst Park. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Burnley og nánast tryggir það að liðið verði áfram í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Mestu vonbrigðin

Sunderland féll úr ensku úrvalsdeildinni eftir 0-1 tap fyrir Bournemouth á heimavelli sínum. Sunderland hefur daðrað við fallið undanfarin ár en er nú loksins fallið eftir 10 ára samfellda dvöl í ensku úrvalsdeildinni. Lærisveinar Davids Moyes hafa verið áberandi lakasta lið deildarinnar í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×