Innlent

Fyrsta skóflustungan að Dýrafjarðargöngum verður tekin um miðjan maí

Anton Egilsson skrifar
Við undirritun samningsins um Dýrafjarðargöng í dag.
Við undirritun samningsins um Dýrafjarðargöng í dag. Mynd: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og forráðamenn verktakafyrirtækjanna Suðurverks og Metrostav frá Tékklandi skrifuðu í dag undir samning um gerð Dýrafjarðarganga en fyrirtækin áttu lægsta tilboð af fimm í verkið. Fyrsta skóflustunga ganganna verður um miðjan mái á þessu ári.

Í frétt á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um undirritunina segir að áætlað hafi verið að skrifa undir samninginn á Hrafnseyri við Arnarfjörð að viðstöddum gestum en vegna veðurs og ófærðar á Hrafnseyrar og Dynjandisheiðum varð ekki að því. Það var því skrifað undir í Reykjavík í dag. Við undirritunina sagði Jón Gunnarsson að nú gætu hafist framkvæmdir við langþráðar samgöngubætur á Vestfjörðum. 

Um miðjan maí verður svo hátíðleg athöfn í Arnarfirði þar sem fyrsta skóflustunga ganganna verður tekin við gangamunnann í Arnarfirði að viðstöddum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vegamálastjóra, sveitarstjórnarmönnum og alþingismönnum og verður hún jafnframt opin almenningi. 

Sömu aðilar og grafa Norðfjarðargöng

Eins og áður sagði voru fimm aðilar sem gerðu tilboð í verkið og var tilboð Metrostav og Suðurverks það lægsta en það nam tæpum 8,7 milljörðum króna. Metrostav og Suðurverk eru þeir sömu og nú grafa Norðfjarðargöng á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. 

„Í ár er ráðgert að vinna fyrir 1,5 milljarða króna samkvæmt fjárlögum og fyrir um 3 milljarða á því næsta. Tilboð Metrostav og Suðurverks í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðaráætlunin,” segir í frétt ráðuneytisins.


Tengdar fréttir

Fresta opnun tilboða í Dýrafjarðargöng

Opnun tilboða í Dýrafjarðargöng, sem fram átti að fara í dag, hefur verið frestað um tvær vikur, að ósk verktaka, sem töldu sig þurfa lengri tíma til að ganga frá tilboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×