Fótbolti

Sara Björk og félagar komnar með þriggja stiga forskot

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sara Björk í leik með Wolfsburg í vetur.
Sara Björk í leik með Wolfsburg í vetur. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Wolfsburg eru komnar með þriggja stiga forskot á Potsdam í efsta sæti þýsku deildarinnar eftir 5-1 sigur á útivelli gegn Frankfurt í dag en þetta var tíundi sigur Wolfsburg í röð.

Eftir að Potsdam missteig sig fyrr í dag gegn Freiburg á heimavelli gat Wolfsburg náð smá forskoti á keppinauta sína en lentu undir snemma leiks. Jackie Groenen kom Frankfurt yfir á 27. mínútu en Lara Dickenmann svaraði um hæl og jafnaði þremur mínútum síðar.

Staðan var því 1-1 í hálfleik en gestirnir frá Wolfsburg létu til sín taka í seinni hálfleik. Pernille Harder kom Wolfsburg yfir á 47. mínútu og tuttugu mínútum síðar bætti Dickenmann við öðru marki sínu og þriðja marki Wolfsburg.

Ewa Pajor innsiglaði sigurinn tíu mínútum fyrir leikslok með fjórða marki Wolfsburg en Caroline Hansen bætti við fimmta markinu í uppbótartíma.

Wolfsburg er því með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir en næst mætir liðið Mönchengladbach áður en liðið mætir Potsdam á útivelli í gríðarlega mikilvægum leik þann 7. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×