Innlent

Heilsugæslan stendur ekki að öllu leyti undir því að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ríkisendurskoðun beinir því til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að auka eftirlit með þjónustu og skilvirkni þeirra 15 heilsugæslustöðva sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu.
Ríkisendurskoðun beinir því til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að auka eftirlit með þjónustu og skilvirkni þeirra 15 heilsugæslustöðva sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu. vísir/ernir
Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að Ríkisendurskoðun telji heilsugæsluna ekki standa að öllu leyti undir því markmiði laga um heiglbrigðisþjónustu að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Eru meginástæður þessa taldar vera „vankantar á skipulagi í heilbrigðiskerfinu, takmarkaðar fjárveitingar til Heilsugæslunnar og skortur á aðhaldi með heilsugæslustöðvunum 15. Afleiðingarnar eru heft aðgengi almennings að þjónustu Heilsugæslunnar á dagtíma sem hefur m.a. valdið því að fólk leitar iðulega á bráðamóttöku Landspítala með erindi sem Heilsugæslan gæti leyst. Eins hefur þjónusta sérgreinalækna aukist mjög á síðustu árum. Hvort tveggja hefur leitt til aukins heildarkostnaðar í heilbrigðiskerfinu og ófullnægjandi aðgengi að sérhæfðu fagfólki innan þess,“ segir í frétt á vef Ríkisendurskoðunar um úttektina.

Þar segir jafnframt að það sé mat Ríkisendurskoðunar að stýring fjárveitinga innan heilbrigðiskerfisins hafi „ekki stuðlað að því að gera Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á tímabilinu 2007–16 jukust fjárframlög til hennar einungis um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11%. Á sama tíma jukust útgjöld vegna sérgreinalækninga um 57% að raunvirði.“

Ríkisendurskoðun beinir því þar af leiðandi til „Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að auka eftirlit með þjónustu og skilvirkni þeirra 15 heilsugæslustöðva sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu. Fylgjast þarf betur en nú er gert með biðtíma notenda eftir þjónustu einstakra stöðva og afköstum þeirra.

Í nóvember 2016 fengu innan við helmingur þeirra sem leituðu til Heilsugæslunnar tíma hjá lækni innan tveggja daga þótt stefnt sé að því að 85% fái tíma innan þeirra tímamarka. Velferðarráðuneyti er einnig hvatt til að skýra betur hlutverk þjónustuaðila í heilbrigðiskerfinu og huga að árangri og skilvirkni með markvissri aðgangsstýringu. Mikilvægt er að þjónusta sé jafnan veitt á réttu þjónustustigi og að ríkið kaupi ekki dýrari heilsugæsluþjónustu en heilsugæslan getur sjálf veitt,“ að því er fram kemur á vef Ríkisendurskoðunar.


Tengdar fréttir

Fáir hafa nýtt réttinn til að skipta um heilsugæslustöð

Innan við 1% þeirra sem eru skráðir með heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu hafa nýtt sér þann möguleika sem gafst um áramótin að skipta um heilsugæslustöð. Þessi tala er þó líklega ekki marktæk, að sögn Ingveldar Ingvarsdóttur, deildarstjóra hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Fjórðungi sjúklinga vísað á heilsugæsluna

Framkvæmdastjóri Geðhjálpar gagnrýnir að fólki sem upplifir sig í bráðum vanda sé vísað annað frá bráðamóttöku geðsviðs. Stórum hluta er vísað til heilsugæslu og um átján prósent þeirra sem leita á móttökuna eru lögð inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×