Innlent

Færðu hælisleitendum mikið af afþreyingarefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Eyþór
Fulltrúar Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, færðu um 70 hælisleitendum mikið af fjölbreyttu afþreyingarefni í heimsókn í Víðines í dag. Samtökin óskuðu eftir því við Útlendingastofnun að fá að heimsækja fólkið en barst nýverið neikvætt svar.

Eftir það var sett af stað söfnun þar sem fólk var hvatt til að gefa hluti eins og bækur, spil, geislaspilara, bolta og margt fleira. Almenningur brást við kallinu og gaf mikið til söfnunarinnar.

Svo var farið með það sem safnaðist í dag. Sema Erla, formaður Solaris, sagði frá ferðinni í dag á Facebooksíðu sinni.

Sema segir fólkið búa í tómum vistaverum við algjöran skort á afþreyingu og mikla félagslega einangrun.

Hún segir viðtökurnar hafa verið einstaklega góðar og þakkar þeim sem komu að söfnuninni á nokkurn hátt.

„Það er óhætt að segja að viðbrögðin fóru fram úr okkar björtustu vonum og vegna ykkar framlags hefur okkur nú tekist að gera aðstæður íbúanna aðeins betri og skemmtilegri og það er ykkur öllum að þakka og því kem ég hér með þökkum íbúanna á framfæri við ykkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×