Lífið

Ársbann fyrir kynþokka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sjálfsmyndir Denny Kwan á Facebook-síðu hennar fóru fyrir brjóstið á siðanefndinni.
Sjálfsmyndir Denny Kwan á Facebook-síðu hennar fóru fyrir brjóstið á siðanefndinni. Denny Kwan
Siðanefnd menningarmálaráðuneytis Kambódíu hefur sett hina 24 ára gömlu Denny Kwan í ársbann frá þátttöku í skemmtanaiðnaðinum þar í landi eftir að hún neitaði að hætta klæða sig á „kynþokkafullan hátt.“

Bannið kemur rúmu ári eftir að Kwan var skipað að sækja klæðaburðarnámskeið á vegum ráðuneytisins eftir að myndir af henni léttklæddri birtust í kambódískum fjölmiðlum. Myndirnar hafði hún áður birt á Facebook-síðu sinni þar sem hún er með rúmlega 300 þúsund fylgjendur.

Formaður siðanefndarinnar segir í samtali við Phnom Penh Post að Kwan hafi rofið samkomulag sem hún undirritaði við nefndina í maí á síðasta ári. Hann segir bannið í fullkomnu samræmi við siðareglur listamanna þar sem kveðið er á um að þeir skuli klæða sig með reisn og þjóðareinkenni í huga.

Ráðuneytið hefur farið þess á leit við listamannasamtök, sjónvarpsstöðvar og aðra aðila skemmtanaiðnaðarins í Kambódíu að Kwan fái engin verkefni á komandi ári - hvort sem það er í kvikmyndum, tónlistarmyndböndum eða í karókíútsendingum í sjónarvarpi.

Kwan sagði í gær að hún hefði ekki enn fengið tiltal frá ráðuneytinu. Hún hefði þó ekki miklar áhyggjur af banninu enda sé hún í sjálfstæðum atvinnurekstri og sæi fram á að spjara sig ágætlega þrátt fyrir að geta ekki starfað í skemmtanabransanum.

„Ég veit að ég hef rétt á því að klæða mig eins og ég vil en menning okkar, Kambódíumanna, er ekki opin fyrir þvi,“ sagði Kwan. „Ég mun reyna að vera ekki eins kynþokkafull og venjulega á myndunum sem ég birti á Facebook.“

Aðdáendur hennar hafa reiðst banninu og krafist þess að það verði tekið til endurskoðunar.

Nánar má fræðast um málið á vef Phnom Penh Post. Þá var Denny Kwan með beina útsendingu á Facebook-síðu sinni í morgun sem sjá má hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×