Innlent

Stálu hátt í 30 pokum fullum af flöskum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hefur haft í nógu að snúast í vikunni.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur haft í nógu að snúast í vikunni. Vísir/Eyþór
Þjófar sem voru á ferðinni í Garði fyrr í vikunni stálu hátt í 30 pokum sem voru fullir af tómum gosflöskum. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir fyrst hafi verið tilkynnt um þjófnað á átta eða níu svörtum ruslapokum sem höfðu að geyma tómar gosflöskur.

Síðar kom annar íbúi úr sömu götu á lögreglustöðina og tilkynnti þjófnað á tuttugu pokum, fullum af flöskum, sem hann hafði safnað saman aftan við hús sitt. Lögreglan veit ekki hver eða hverjir voru þarna að verki.

Þá var lögreglunni á Suðurnesjum einnig tilkynnt um innbrot í íbúðarhúsnæði í umdæminum. Höfðu þjófarnir á brott með sér tvær fartölvur, sjónvarp og sjónvarpsflakkara en lögreglan rannsakar nú málið.

Svo var það ökumaðurinn sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið sem „var vægast sagt með allt sem hugsast gat í ólagi. Bifreiðin var ótryggð og óskoðuð frá því árið 2015. Þá ók hann sviptur ökuréttindum. Loks vaknaði grunur um að hann æki undir áhrifum fíkniefna og var hann því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum og sýnatökur fóru fram. Tveir ökumenn til viðbótar voru einnig grunaðir um fíkniefnaakstur,“ segir í tilkynningu.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur síðan kært nítján ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Sá sem ók hraðast mældist á 124 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×