Innlent

Ört hlýnandi veður eftir helgi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bráðum munu landsmenn geta spilað kubb í blíðunni.
Bráðum munu landsmenn geta spilað kubb í blíðunni. Vísir/Ernir
Veður fer ört hlýnandi eftir helgina og munu tveggja stafa hitatölur láta víða á sér kræla, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Víða um land hefur snjóað töluvert undanfarna daga en hlýindi eru í kortunum.

„Ætla má að snjóa leysi víða og hækki í ám fyrir vikið. Spár gera svo ráð fyrir að hæðarsvæði muni tylla sér yfir landið á fimmtudaginn og verði það raunin má ætla að föstudagurinn verði sumarlegur,“ segir í hugleiðingunum.

Hlýrra loft mun leika um landið eftir helgi og líkt og kom fram á Vísi í vikunni er útlit fyrir nokkuð hlýtt og gott veður eftir helgi.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustlæg átt, víða 8-15 m/s, en hægari í kvöld. Skúrir eða slydduél, þurrt að mestu NV til en ringing eða súld A-lands. Svipað vindafar á morgun með rigningu sunnan- og vestanlands en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti yfirleitt 3 til 12 stig að deginum, hlýjast norðan heiða.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Austan 8-15 m/s, hvassast við ströndina. Víða rigning, en yfirleitt þurrt N-lands. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á N-landi.

Á mánudag:

Austan 10-18 m/s, hvassast við S-ströndina. Rigning eða súld en úrkomulítið NA til. Lægir heldur seinnipartinn. Hiti 3 til 10 stig.

Á þriðjudag:

Suðaustan 13-20, hvassast SV til, og víða rigning eða súld, en bjart með köflum NA til. Milt í veðri, einkum norðan heiða.

Á miðvikudag:

Suðaustanátt, 5-13 NA-til en 8-15 m/s annars staðar. Víða súld eða rigning um landið sunnan og vestanvert en bjartviðri NA-lands. Hlýtt í veðri, einkum NA til.

Á fimmtudag:

Suðlæg átt með þokulofti eða súld S og V til, en víða bjartviðri N-lands. Áfram hlýtt í veðri.

Á föstudag:

Bjartviðri með hlýindum og hægum vindi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×