Innlent

Varað við algengri hóstamixtúru

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Pjetur
Landlæknir varar við því að börnum séu gefin SEM-mixtúra sem mikið er notuð við hósta. Ástæðan er sú að mixtúran inniheldur umtalsvert magn af kódeini, sem getur haft margar aukaverkanir. Mikil aukning hefur orðið á notkun mixtúrunnar.

Á vef Landlæknis kemur fram að á undanförnum árum hafi átt sér stað nokkur aukning í ávísun lyfja sem innihalda kódein, þar sé eitt lyf sem skeri sig úr og það sé SEM mixtúra. Þar segir jafnframt að hver barnaskeið (10 ml) af mixtúrunni inniheldur um 25 mg af kódeini, en til samanburðar inniheldur ein tafla af Parkodin forte 30 mg af kódeini.

Samhliða mikilli aukningu í í notkun mixtúrunnar handa börnum hefur þeim börnum fækkað sem fengu Parkodin eða Parkodin forte en nærri fjórfalt fleiri börn fengu ávísað SEM-mixtúru árið 2016 en 2012.

Á vef Landlæknis segir að SEM-mixtúra sé forskriftarlyf læknis, engar upplýsingar eða fylgiseðill fylgir lyfinu og eru þar af leiðandi engar leiðbeiningar eða aðvaranir. Ópíóíðar eins og morfín og kódín hafi almennt margar aukaverkanir. Meiri líkur séu á að aukaverkanir komi fram séu þeir teknir í óhóflegu magni eða af þeim sem þeir eru ekki ætlaðir.

Þar segir einnig að alvarlegasta aukaverkun ópíóíða sé öndunarbæling og séu vissir hópar, meðal annars börn og aldraðir, viðkvæmari en aðrir. Þeir sem umbrjóta kódein hratt eru í verulegri hættu að fá alvarlegar aukaverkanir.

Varar embætti Landlæknis við ávísunum kódeins á börn og einnig þeirri misnotkunarhættu sem af kódeini getur stafað en það umbreytist í morfín í líkamanum sem er mjög ávanabindandi verkjalyf.

Bendir landlæknir á að Kódein eigi ekki að gefa börnum yngri en 12 ára og aðeins eigi að gefa lyf sem innihaldi efni í stuttan tíma og í eins litlum skömmtum og hægt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×