Bakþankar
Óttar Guðmundsson.

Á páskum

Óttar Guðmundsson skrifar

Á æskuárum mínum í Laugarneshverfinu leigði gömul kona, Lilja að nafni, herbergi hjá foreldrum mínum. Á föstudaginn langa klæddist hún í tötra, makaði sig í kolaryki og sat í rúmi sínu og grét. Mér eru enn þá minnisstæð veinin sem bárust frá Lilju þennan dag. Þetta var dagur sorgar, allt skemmtanahald var bannað, fánar í hálfa stöng, búðir lokaðar og ætlast til að fólk héldi sig innan dyra. Þetta var ákaflega leiðinlegur og langur dagur.

Ég hef farið víða á föstudaginn langa og séð þá óttablöndnu virðingu sem borin er fyrir deginum. Í Jerúsalem gengu hópar pílagríma upp á Golgata og létu berja sig með svipum. Í kirkjum Póllands sá ég gamlar konur sem grétu yfir líkneskju af krosshanganum. Á páskadag breyttist allt. Frelsarinn upprisinn, lífið sigraði dauðann, og fólk fagnaði gróskunni og komandi sumri.

Gildi trúarbragða fer minnkandi og margir vilja afneita liðlega þúsund ára sögu kristni á Íslandi. Það er þó erfitt þar sem sú saga er samofin Íslands- og menningarsögunni. Menn gagnrýna hefðir þessa föstudags og vilja efna til gleðskapar og bingós til að sýna andstöðu sína. „Gleðilega krossfestingu,“ sagði kunningi minn glaðhlakkalega á þessum degi. Fyrir honum hafði píslarsagan glatað allri merkingu sinni og hann var að óska til hamingju með frídaginn. Í landi trúfrelsis er þetta ósköp eðlilegt þótt sennilega hefði liðið yfir Lilju leigjanda ef einhver hefði kastað á hana slíkri kveðju. Í nútímasamfélagi skiptir mestu að sýna gagnkvæma tillitssemi og umburðarlyndi, bæði gagnvart bingóspilurum og liljum heimsins. Gleðilega páska.
Skoðun

Bakþankar

Von

Bjarni Karlsson skrifar

Sjá meira