Innlent

Skaginn hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra Skaginn 3X, verðlaunin fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði.
Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra Skaginn 3X, verðlaunin fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði. Róbert Róbertsson
Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum klukkan 14:30 í dag. Verðlaunin að þessu sinni hlýtur íslenska tækni- og framleiðslufyrirtækið Skaginn en þetta er í 29. skiptið sem Útflutningsverðlaunin eru veitt.

Þá var frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir að hafa með starfi sínu borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað þannig að jákvæðu umtali um land og þjóð.

Í tilkynningu segir um Skagann, fyrirtækið sem hýtur Útflutningsverðlaunin í ár:

„Skaginn hf. fær verðlaunin fyrir að hafa náð afar athyglisverðum árangri í að þróa, framleiða og selja tækjabúnað fyrir matvælaiðnaðinn, einkum fiskvinnsluna.

Fyrirtækið er í fremstu röð þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa náð að brjóta sér leið inn á alþjóðlegan matvælamarkað með framleiðsluvörur sem í upphafi eru þróaðar í nánu samstarfi við íslensk framleiðslufyrirtæki. Sérstaða Skagans hf. er fólgin í byltingarkenndum tækninýjungum hvað varðar íslausa kælingu á matvælum, sjálfvirkni og lausnum við pökkun og flutning á afurðunum.“

Sögu fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 1985 og hefur það selt vörur sínar víða um heim. Í dag er Skaginn rekinn í þremur einingum, það er sem Skaginn hf., Þorgeir og Ellert hf. og 3X Technology á Ísafirði Velta Skagans á síðasta ári var um 4,4 milljarðar króna og heildarvelt systurfyrirtækjanna þriggja sex milljarðar. Starfsmenn eru í heildina um 180 talsins.

Eins og áður segir var Vigdísi Finnbogadóttur svo veitt sérstök heiðursviðurkenning en um hana segir í tilkynningu:

 

„Vigdís var, eins og kunnugt, fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja og bar þar sigurorð af þremur körlum. Hún var fjórði forseti Íslands og gegndi embættinu í 16 ár - frá árunum 1980 til 1996.

Sigur Vigdísar í forsetakosningunum varpaði kastljósi alheimsins á hana og á Ísland í leiðinni.

Í ræðu sinni um Vigdísi hafði Sigsteinn Grétarsson, formaður úthlutunarnefndar m.a. á orði:

„Við Íslendingar spegluðum okkur í þeirri mynd sem Vigdís dró upp af landi okkar og þjóð. Hún minnti okkur á að það er lán að vera fæddur hér á landi, hún minnti okkur á mikilvægi þess að standa vörð um íslenska tungu og kunna skil á sögu þjóðarinnar og menningu. Og ekki hvað síst minnti hún okkur á að konur og karlar eru jafnokar á öllum sviðum.““

Í dómnefnd vegna verðlaunanna sátu að þessu sinni Sigsteinn Grétarsson, stjórnarformaður Íslandsstofu, Björgólfur Jóhannsson frá Viðskiptaráði, Runólfur Smári Steinþórsson frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands og Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands. Íslandsstofa er bakhjarl Útflutningsverðlaunanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×