Körfubolti

Sverrir Þór: Hún á að vera svona góð

Anton Ingi Leifsson í Borgarnesi skrifar
Sverrir Þór Sverrisson faðmar Ariana Moorer eftir bikarúrslitaleikinn.
Sverrir Þór Sverrisson faðmar Ariana Moorer eftir bikarúrslitaleikinn. Vísir/Andri Marinó
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var sáttur með sínar stelpur sem mættu í Fjósið í kvöld, unnu sannfærandi fimmtán stiga sigur á Skallagrími og jöfnuðu metin í undanúrslitaeinvígi liðanna í 1-1.

„Baráttan var til fyrirmyndar. Við fráköstuðum vel og við vorum virkilega flottar í sókninni. Við vorum að taka af skarið og skila góðum körfum,” sagði ánægður Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við íþróttadeild 365 í leikslok.

„Þetta var flott, en nú er staðan bara 1-1 og þetta er úrslitakeppnin. Nú þurfum við að fara huga að næsta leik og gera okkur klárar í hann. Við þurfum að gera allt upp á nýtt þá,” en Sverrir var sammála blaðamanni að um liðssigur hafi verið að ræða í kvöld:

„Ég var virkilega mjög ánægður með þær sem komu við sögu hérna í kvöld, en þetta verður barningur. Við erum að mæta hörkuliði Skallagríms og þetta er bara rétt að byrja.”

Ariana Moorer skoraði einungis átta stig í fyrsta leiknum, en í kvöld steig hún heldur betur upp og átti frábæran leik. Moorer endaði með þrennu, skoraði 18 stig, tók 18 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

„Hún á að vera svona góð, en hún á ekki að gera allt. Hún á að stjórna sókninni, taka af skarið og halda hinum leikmönnunum opnum. Hún er virkilega góður leikmaður,” sagði Sverrir sem hélt áfram að hrósa Moorer sem hitti aðeins úr 1 af 11 skotum sínum í fyrsta leik einvígisins.

„Hún var ekki þannig í síðasta leik, en það geta allar átt slæman dag. Hún var virkilega góð í kvöld og við þurfum á henni að halda í þessum gír,” sagði Sverrir sem er ánægður að þurfa koma aftur í Borgarnes.

„Það er gaman að spila í Borgarnesi. Það er stemning hérna og það er hörkuáhorfendur hér eins og í Keflavík. Þær eru með hörkulið og þetta er bara gaman. Við eigum pottþétt eftir að mætast tvisvar,” sagði Sverrir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×