Íslenski boltinn

Reynslumesti leikmaður skoska landsliðsins í markið hjá Íslandsmeisturunum

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Gemma Fay í leik með Skotlandi.
Gemma Fay í leik með Skotlandi. vísir/getty
Íslandsmeistarar Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna hafa fengið mikinn liðsstyrk fyrir sumarið en skoski landsliðsmarkvörðurinn Gemma Fay hefur fengið félagaskipti í Garðabæjarliðið.

Fay er 35 ára gömul og er leikjahæsti landsliðsmaður Skota frá upphafi. Hún spilaði í 4-0 tapi Skotlands gegn Íslandi á síðasta ári og 2-1 sigrinum á Laugardalsvelli.

Berglind Hrund Jónasdóttir, sem fékk tækifærið í marki Stjörnunnar á síðustu leiktíð, hefur glímt við meiðsli. Berglind stóð sig með prýði í fyrra og fékk fyrir frammistöðuna sinn fyrsta A-landsleik þegar hún varði mark Íslands á móti Úsbekistan í vináttulandsleik í Kína í október í fyrra.

Stjarnan komst nokkuð óvænt ekki í undanúrslit Lengjubikarsins en liðið mætir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ 21. apríl áður en Íslandsmótið hefst hjá konunum 27. apríl.

Stjarnan hefur styrkt liðið vel fyrir titilvörnina í sumar en liðið er auk Gemmu Fay búið að fá til sín framherjana Telmu Þrastardóttur úr Breiðabliki og Guðmundu Brynju Óladóttur úr Selfossi. Þá er hin efnilega Nótt Jónsdóttir einnig mætt í Garðabæinn úr FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×