Bílar

Míkrójeppinn Ignis með sérstöðu

Finnur Thorlacius skrifar
Ignis er stuttur og snaggaralegur og með mikla væghæð og fjórhjóladrif.
Ignis er stuttur og snaggaralegur og með mikla væghæð og fjórhjóladrif.
Reynsluakstur – Suzuki Ignis



Í öllu því úrvali bíla sem nú finnst frá bílaframleiðendum heims er erfitt að skapa bíl sem hefur mikla sérstöðu og fyllir uppí tómarúm. Það var eiginlega það fyrsta sem mér datt í hug er ég hóf að reynsluaka þessum óvenjulega og nýja bíl frá Suzuki. Þetta hefur einmitt tekist með þessum nýja Ignis. Það hljómar í fyrsta lagi mjög vel að fá hingað til lands bíl sem er fjórhjóladrifinn og með 18 cm undir lægsta punkt og kostar undir tveimur og hálfri milljón króna. Auk þess að vera með heilmikið innanrými þó skottið sé ekki ýkja stórt.

Það hljómar líka vel að þessi bíll sé framleiddur af Suzuki, en þeir bila almennt lítið og eru mjög áreiðanlegir. Nafnið Ignis hefur legið í láginni hjá Suzuki frá árinu 2008, en fær hér endurnýjun lífdaga, enda endurvinnsla alltaf góð. Hér fer þó gerbreyttur bíl frá fyrri gerð Ignis. Ignis er kubbslaga, hár til þaksins, reyndar svo hár að hann er á pari við Vitara jepplinginn frá Suzuki. Ignis er líka stuttur, svo stuttur að hann er styttri en Suzuki Swift. Óvenjuleg hlutföll en ganga svo vel upp í prýðilegum akstursbíl. 

Léttur með litla en dugandi vél

Ignis er bíll með glaðlega ásýnd, hreinlega mjög fallegur að framan en með óvenjulegan afturenda sem gæti ekki fallið öllum í geð, þó að svo hafi verið í mínu tilfelli. Það er líka leit að bíl með hjólin eins nálægt hornum bílsins. Það er þó gert til að auka bæði innanrýmið og bæta aksturseiginleikana. Ignis er ekki með stórri vél, eða með 1,2 lítra sprengirými í fjórum strokkum og 90 hestöfl. Þar fer ný og stórskemmtileg vél sem passar mjög vel við góða 5 gíra beinskiptinguna, en bíllinn býðst eingöngu beinskiptur. Það hentar þessum bíl líka vel og það er eindregin skoðun greinarritara að litlum bílum fari það einmitt best.

Þessi eina vél er í boði enn sem komið er, en Suzuki mun einnig framleiða Ignis með Hybrid kerfi. Það verður með fremur smárri rafhlöðu og er ekki ætlað til að aka bílnum langar vegalengdir á rafmagninu einu saman, heldur til að auka aflið á réttum stundum og lækka eyðsluna í leiðinni. Þessi nýja 1,2 lítra vél passar Ignis svo vel og hefur í raun ekki eins mikið að gera og ætla mætti því hún þarf aðeins að draga 810 kg bíl í sinni léttustu útfærslu, en 870 kg með fjórhjóladrifi. Fyrir vikið var aukins vélarafls sjaldan óskað og með þessari vél eyðir bíllinn sáralitlu, en uppgefin eyðsla er 5,0 lítrar.

Fjórhjóladrifinn og eingöngu þannig

Ignis verður einungis seldur hér á landi með fjórhjóladrifi og eru það prýðilegar fréttir og rýmar vel við mikla veghæð bílsins. Hann er því hæfur til að glíma við talsverðar torfærur og gæti hæglega verið mun hæfari þar en margur jepplingurinn, ekki síst vegna þess hve léttur hann er. Ekki reyndist unnt að prófa hann í reynsluakstrinum við slíkar aðstæður en það bíður betri tíma og verður forvitnilegt. Einn af stórum kostum Ignis, sem margir munu kunna að meta, er há sætisstaða. Ökumannssætið er í þeirri hæð að sest er beint uppí bíllinn, ekki niður og ekki upp. Útsýnið úr bílnum er fyrir vikið fínt og almennt er útsýni úr bílnum gott.

Þegar lagt er síðan af stað minnkar ánægjan ekki því ferlega gaman er að aka þessum skemmtilega kubbi. Lipurð og léttleiki eru fyrstu orðin sem koma uppí hugann og borgaraksturinn verður að hreinni ánægju. Ignis er enginn sportbíll, þá er betra að velja sér Swift Sport, en hann hendist eftir vilja ökumanns þrátt fyrir óvenju mjó dekk bílsins. Fjórhjóladrifið og léttleiki bílsins gera hann óvenju fiman og auðveldan í akstri. Þó er eitt sem betur mætti færa, en fjöðrunin er fullstíf að aftan og á til að höggva aðeins á ójöfnum.

Heilmikill búnaður

Eðlilegt væri að ætla að svo ódýr bíll og Ignis væri fátæklegur er kemur að búnaði, en öðru er til að dreifa. Akreinaskiptivari, brekkuaðstoð, skriðstýring niður brekkur, veggripsstýring, sjálfvirk hemlun, hiti í sætum, hitastýrð miðstöð, 6 öryggispúðar, 6 hátalara hljómkerfi og USB, Bluetooth og 12 volta tengingar er gott dæmi um heilmikinn staðalbúnað. Innréttingin er frekar einföld og ekki hægt að tala um neinn íburð, en skilvirk og lagleg er hún samt.

Þarna er allt sem til þarf og þeir sem kjósa sér lúxusinnréttingar verða að sætta sig við að borga tvisvar til þrisvar sinnum meira fyrir bíla sína. Þannig er þessi bíll ekki hugsaður. Hann er allt sem þú þarft fyrir lítið. Ignis í GL útgáfu með fjórhjóladrifi kostar 2.480.000 kr. og með því er hann ódýrasti fjórhjóladrifni bíllinn sem fá má hérlendis. Í GLX útgáfu kostar Ignis 2.760.000 kr. og þar fæst heilmikið fyrir viðbótina. Suzuki Ignis er stórskemmtileg viðbót við bílaflóruna og mun kæta margan kaupandann.

Kostir:  Veghæð, rými, fjórhjóladrif, verð

Ókostir: Stíf fjöðrun að aftan, lítið skott

1,2 lítra bensínvél, 90 hestöfl

Fjórhjóladrif

Eyðsla frá: 5,0 l./100 km í bl. akstri

Mengun:114 g/km CO2

Hröðun: 11,9 sek.

Hámarkshraði: 165 km/klst

Verð frá: 2.480.000 kr.

Umboð: Suzuki

Hjól bílsins standa eins uturlega og kostur er.
Stuttur afturendi og fyrir vikið ekki ýkja mikið skottpláss en það stækkar mjög við að fella niður aftursætin.
Laglegur framendi.
Skilvirk og einföld innrétting.
Umhverfi ökumanns er þægilegt og allt svo skiljanlegt og einfalt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×