Enski boltinn

Meiddu miðverðir Manchester United liðsins verða lengi frá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Smalling og Phil Jones í leik með Manchester United.
Chris Smalling og Phil Jones í leik með Manchester United. Vísir/Getty
Chris Smalling og Phil Jones, varnarmenn Manchester United, meiddust það illa í æfingabúðum enska landsliðsins að þeir verða lengi frá æfingum og keppni.

Phil Jones meiddist á tá á æfingu eftir að því virtist hættulausa tæklingu og Chris Smalling er kominn með spelku á fótinn eftir að hafa líka meiðst á æfingu enska landsliðsins.  

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var spurður út í meiðsli miðvarðanna á blaðamannafundi í dag.  Hann var allt annað en ánægður með að fá umrædda leikmenn meidda til baka úr landsliðsverkefni. BBC segir frá.

„Ég veit ekki hversu lengi þeir verða frá. Þetta eru samt greinilega meiðsli sem munu halda þeim frá keppni í langan tíma,“ sagði Jose Mourinho.

Það er svo sem ekkert nýtt að hinn 25 ára gamli Phil Jones sé meiddur enda búinn að vera meira eða minna meiddur allan sinn feril.

Það eru samt ekki bara slæmar fréttir af leikmannahópi United því hinn 31 árs gamli Wayne Rooney er leikfær á ný en hann hefur misst af síðustu fjórum leikjum Manchester United liðsins.

Manchester United mætir West Bromwich í ensku úrvalsdeildinni á morgun en liðið verður líka án þeirra Zlatan Ibrahimovic og Ander Herrera sem eru í leikbanni. Þá er Paul Pogba tognaður aftan í læri og verður ekki með.

Chris Smalling og Phil Jones á landsliðsæfingu.Vísir/Getty
Chris Smalling og Phil Jones.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×