Innlent

Dyravörður á Strawberries fær bætur vegna gæsluvarðhalds

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn aðfaranótt 26. október 2013 þar sem hann var að sinna dyravörslu á Strawberries. Lögreglan kom á staðinn og handtók alla starfsmennina vegna gruns um að þar væri stunduð vændisstarfsemi.
Maðurinn var handtekinn aðfaranótt 26. október 2013 þar sem hann var að sinna dyravörslu á Strawberries. Lögreglan kom á staðinn og handtók alla starfsmennina vegna gruns um að þar væri stunduð vændisstarfsemi. vísir/stefán

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi dyraverði á skemmtistaðnum Strawberries 800 þúsund krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem maðurinn mátti sæta haustið 2013.

Forsaga málsins er sú að maðurinn var handtekinn aðfaranótt 26. október 2013 þar sem hann var að sinna dyravörslu á Strawberries. Lögreglan kom á staðinn og handtók alla starfsmennina vegna gruns um að þar væri stunduð vændisstarfsemi en á endanum var enginn ákærður fyrir það.

Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi verið yfirheyrður af lögreglu og kynnt sakarefnið þá um nóttina sem og aftur um morguninn. Hann hafi greint frá því við hvað hann starfaði á staðnum og kvaðst ekki vita til þess að vændi væri stundað þar.

Sama dag og maðurinn var handtekinn var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. nóvember 2013 á grundvelli rannsóknarhagsmuna og var honum gert að sæta einangrun á meðan. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann en stytti þó gæsluvarðhaldið og sat maðurinn í haldi til 1. nóvember 2013.

Þann 18. júní 2015 fékk maðurinn svo bréf frá ríkissaksóknara þar sem honum var tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið. Hvað hann varðaði hefði málið verið fellt niður þar sem það sem komið hafði fram við rannsóknina þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellingar.

Óumdeilt var í málinu að ríkið væri skaðabótaskylt vegna gæsluvarðhaldsins en deilt var um upphæðina. Ríkið hafði boðist til að greiða manninum 600 þúsund krónur í bætur en hann fór fram á mun hærri fjárhæð, eða alls 2,6 milljónir króna.

Gerði hann það á grundvelli þess að hann „hafi orðið fyrir stórfelldum miska vegna þvingunaraðgerða lögreglu. Við mat á miska verði að hafa í huga að stefnandi hafi ranglega verið sakaður um aðild að mjög alvarlegu refsiverðu broti. Hann hafi ekki aðeins þurft að þola langa frelsissviptingu vegna málsins heldur fylgi slíku máli mikil fordæming af hálfu samfélagsins. Sakargiftum hafi verið lýst sem sölu og milligöngu um vændi og ekki þurfi að fjölyrða um alvarleika slíkra brota,“ eins og segir í dómi héraðsdóms.

Þá vísaði maðurinn jafnframt í fjölskylduaðstæður sínar en hann er giftur og á tvö börn. Börn hans hafi á þessum tíma verið á viðkæmum aldri og því hafi þvingunaraðgerðir lögreglu reynst honum erfiðari en ella.

Héraðsdómur féllst á það með manninum að hann ætti rétt á hærri bótum en ríkið hafði boðist til að borga en féllst þó ekki á kröfu hans um 2,6 milljónir króna. Ríkið var hins vegar dæmt til að greiða honum 800 þúsund krónur eins og áður segir en dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira