Skoðun

Verður Landspítalinn okkar?

Elísabet Brynjarsdóttir skrifar
Í vor mun ég útskrifast sem hjúkrunarfræðingur eftir fjögurra ára langt háskólanám. Í náminu hef ég fengið að kynnast starfsemi Landspítalans í verknámi og sem starfsmaður og ég hef litið björtum augum til framtíðarinnar þar. Því hefur lengi verið haldið að okkur hjúkrunarfræðinemunum að með breytti aldurssamsetningu þjóðar fari þörf á hjúkrunarfræðingum sífellt vaxandi. Við erum eftirsóttur starfskraftur og tækifærin eru á hverju strái.

Þörfin fyrir hjúkrunarfræðinga hefur sjaldan verið jafnmikil og skortur á þeim nemur hundruðum í dag. Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að skortur á hjúkrunarfræðingum hefur í för með sér fleiri dauðsföll, veldur því að þjónustu hrakar, sem og ánægju og vellíðan sjúklinga. En af hverju eru launin ekki í samræmi við þennan skort í starfsstéttinni?

Raunveruleiki hjúkrunarfræðinga

Við sem erum að útskrifast í vor höfum kynnt okkur mismunandi kjör vinnustaða. Niðurstöðurnar eru sláandi. 1. júní næstkomandi munu laun okkar hækka á Landspítalanum í samræmi við núverandi samninga. Þá er staðan þessi:

> Landspítali:

Byrjunarlaun: 375.304 kr

>Reykjavíkurborg 

Byrjunarlaun: 437.603 kr

>Sveitarfélög

Byrjunarlaun: 430.244 kr

Mismunurinn milli Landspítalans og Reykjavíkurborgar eru um það bil 62.300 kr. Á einu ári gera það um það bil 750 þúsund krónur. 

Vert er að benda á að þessi laun miðast við fullt starf en það eru ekki margir hjúkrunarfræðingar sem hafa tök á því að vera í 100% vaktavinnu. Meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum er 71%. Ein helsta ástæðan fyrir því að hjúkrunarfræðingar geta ekki ráðið sig inn í fullt starf er álag.

Endurreisn heilbrigðiskerfis án hjúkrunarfræðinga?

Samkvæmt nýútgefinni skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er launamunur á hjúkrunarfræðingum og öðrum stéttum með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi hjá hinu opinbera um 20%. Verkfall hjúkrunarfræðinga árið 2015 endaði með lagasetningu á stéttina. Hjúkrunarfræðingar mega því ekki fara í verkfall fyrr en árið 2019. Af hverju á stéttin mín ekki að vera metin til jafns við aðrar stéttir hjá hinu opinbera?

Ég vil vinna að bættri þjónustu sjúklinga og byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi. Ég hef starfað á spítalanum í tvö ár og ég vil starfa þar áfram en ég get það ekki. Ég mun því ekki sækja um starf á Landspítalanum eftir útskrift. Ég get ekki samþykkt þessi laun eftir háskólanámið mitt. Ljóst er að spítalinn og ríkisstjórnin verða að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum og grundvöllurinn eru sanngjörn grunnlaun til þess að útskrifaðir hjúkrunarfræðingar skili sér á spítalann og að starfandi hjúkrunarfræðingar endist í starfi.

Vinsælt er að tala um endurreisn heilbrigðiskerfisins – eiga hjúkrunarfræðingar ekki að vera hluti af henni?




Skoðun

Sjá meira


×