Innlent

Lægð nálgast landið í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum.
Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum. vísir/vilhelm

Veðurstofa Íslands varar við stormi syðst á landinu í nótt. Lægð nálgast nú landið úr suðvestri með stífri austanátt og slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands, en snjókomu norðantil.

Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum. Um tíma má búast við vestan stormi syðst á landinu. Dregur hægt úr vindi og éljum á morgun, en bætir aftur í vind og úrkomu suðvestantil annað kvöld. Fremur milt í dag, en kólnar á morgun. Víða frost annað kvöld, segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Þá varar Vegagerðin við hálku víða um land. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum sem og sums staðar í uppsveitum. Annars eru vegir greiðfærir víða um sunnanvert landið. Hálkublettir eru á Grindavíkurvegi.

Hálka er á Holtavörðuheiði, Vatnaleið og Fróðárheiði en þar er einnig éljagangur. Hálkublettir á nokkrum vegum á Vesturlandi.

Hálka eða hálkublettir eru á sumum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast er greiðfært á láglendi. Snjóþekja og éljagangur er á Klettshálsi.

Á Norður-  og Austurlandi er hálka og hálkublettir og jafnvel snjóþekja á fáförnum vegum og fjallvegum. Einnig éljar á Öxnadalsheiði. Krapi og þoka er með norðausturströndinni.

Hálkublettir eru á Suðausturlandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira