Lífið

Risanöfn úr tónlistarheiminum á Secret Solstice hátíðinni

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Rick Ross, eða Stóri yfirmaðurinn, kemur með hitann frá Miami.
Rick Ross, eða Stóri yfirmaðurinn, kemur með hitann frá Miami.

Eins og síðustu ár verða ýmis stór nöfn í boði á Secret Solstice hátíðinni í sumar. Þetta ár verður sérstaklega stórt í rappdeildinni en nokkrir af stærstu listamönnum heimsins munu mæta í Laugardalinn í sumar. Lífið fer hér yfir örlítið brot af þeim.

Rick Ross
Ameríski rapparinn Rick Ross frá Flórída-fylki ruddist inn á topplistana með látum þegar hann gaf út lagið Hustlin‘ árið 2006. Rick Ross kom fram í tónlistinni sinni sem stórtækur dópsali á pari við menn eins og El Chapo, Pablo Escobar og Freeway Ricky Ross (þaðan sem rappnafnið hans kemur) – hann var ekki einu sinni að reyna að halda því fram að hann væri að segja satt með sögunum í lögunum sínum, eins og hafði að miklu leyti tíðkast í rappi fram að þessu. Með því breytti Rick Ross glæparappi og menn urðu ófeimnari við að segja gríðarlega ýktar sögur en fram að þessu hafði tíðkast að hafa að minnsta kosti smávægilegan sannleika á bak við textana. Síðan 2006 hefur Rick Ross gefið út hvern smellinn á fætur öðrum, verið gestur í lögum hjá öllum stærstu röppurum í heiminum og gefið út átta plötur sem allar hafa selst vel. Nú á þessu ári er á leiðinni níunda platan frá Ross og mun hún bera titilinn Rather you than me.

Big Sean
Big Sean var eins og svo margir aðrir uppgötvaðir af Kanye nokkrum West. Kanye var í viðtali á útvarpsstöð í Detroit, heimabæ Big Sean, og Sean hafði frétt af því, dreif sig á staðinn og rappaði fyrir Kanye West sem virðist hafa verið skemmt því að Big Sean fékk samning við GOOD music árið 2007. Hann gefur út nokkur mixteip í framhaldi af því, gerir myndband með Hype Williams og er gestur hjá nokkrum stórum nöfnum þangað til að hann er fenginn með í lagið Mercy ásamt Kanye West, Kid Cudi, 2 Chainz og Pusha T, en lagið var eitt það stærsta árið 2012. Síðan þá hefur hann sent frá sér fjórar plötur, þar á meðal platan Dark Sky Paradise sem hann gaf út árið 2015 og innihélt smellina Blessings og I don‘t fuck with you og síðan kom út platan I Decided snemma á þessu ári. Lagið Bounce Back er búið að vera stöðugri spilun hjá öllum betri plötusnúðum síðan þá.

Anderson .Paak
Kaliforníu rapparinn og tónlistarmaðurinn Anderson .Paak hefur verið að gera það mjög gott á þeim stutta tíma síðan hann komst í sviðsljósið. Hann var bókstaflega heimilislaus árið 2011 en hefur síðan þá gert lög með Dr. Dre, gefið út tvær plötur og valinn á hina svokölluðu „freshman“ forsíðu á rapptímaritinu XXL, en þangað fara þeir rapparar sem ritstjórn blaðsins telur að muni gera það gott á næstu mánuðum og árum. Árið 2016 kom út platan Malibu með honum en menn voru að missa sig yfir henni, samanburður við Kendrick Lamar var ansi algengur hjá gagnrýnendum og platan komst inn á nánast alla stærstu lista yfir plötur ársins.

Young M.A.
Hin 24 ára gamla Young M.A. var einn af heitustu nýju listamönnunum í fyrra en lagið hennar Ooouuu varð stærsta lag síðasta sumars – stórir rapparar kepptust við að gera remix af því og það gjörsamlega raðaði inn spilunum á Spotify, en það kom út í maí 2016 og var hlustun komin í 7 milljónir strax í september sama ár. Young M.A. er vonarstjarna allra aðdáenda New York-rapps, en fæðingarstaður rappsins hefur dregist aftur úr síðustu árin í vinsældum, en í Ooouuu má finna mörg af einkennum New York-rappsins í nútíma útgáfu. Young M.A. hefur gert lög þar sem hún fjallar um reynslu sína sem samkynhneigð kona í karlægri menningu sem lítur niður á samkynhneigð – hún er því ekki bara mikilvæg sem rappari sem gæti orðið mjög stór heldur er hún mikilvæg rödd minnihlutahóps í karlægum og gagnkynhneigðum heimi rapptónlistar.

Hér gefur að líta alla sem koma fram á Secret Solstice hátíðinni í sumar.

Það er hellingur af öðru rappi sem kemur til með að koma fram á hátíðinni, til að mynda Roots Manuva, Pharoah Monch, Princess Nokia, Left brain og fleiri. Þá eru alveg ónefndir allir bresku grime listamennirnir sem koma til landins.

Stærstu nöfnin eru svo auðvitað Foo Fighters og The Prodigy. 

Á plakati hátíðarinnar má sjá alla listamennina sem mæta á Laugardalinn í sumar.

Miða á hátíðina má nálgast hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira