Innlent

Bið í tvo mánuði eftir að komast á árs biðlista: „Ég er svo reið“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ágústa er almennt heilsuhraust og starfar enn sem sjúkraliði á Grund - nema hún þarf að komast í mjaðmaliðaaðgerð til að geta haldið áfram sínu daglega lífi.
Ágústa er almennt heilsuhraust og starfar enn sem sjúkraliði á Grund - nema hún þarf að komast í mjaðmaliðaaðgerð til að geta haldið áfram sínu daglega lífi. mynd/ebg
Ágústa Baldvinsdóttir er 74 ára og hefur fundið fyrir verk í mjöðm í lengri tíma. Nú í febrúar fór hún í myndatöku sem staðfesti að mjaðmaliðurinn er ónýtur. Verkirnir hafa versnað og hefur hún undanfarnar vikur átt erfitt með gang og að komast í og úr íbúð sinni á annari hæð.

„Málið er bara að ég er orðin bækluð. Ég er það. Og það þarf að skipta um liðinn. Mér finnst bara mjög sorglegt hvernig er komið fram við okkur hér á Íslandi. Sérstaklega þegar maður er farinn að eldast," segir Ágústa.

Framkoman sem Ágústa talar um er að eftir myndatökuna hélt hún að hún væri komin á biðlista eftir mjaðmaliðaaðgerð. En svo kom í ljós eftir ítrekaðar hringingar á Landspítala að hún var eingöngu komin með tíma í skoðun hjá bæklunarlækni - og sá tími er í maí. Fyrst eftir tíma hjá lækni kemst hún á biðlistann. Þegar hún sagðist ekki geta beðið vegna erkja var henni sagt að eina leiðin til að flýta ferlinu væri að bera sig illa og láta leggja sig inn.

Ágústa verður klökk þegar hún segir frá þessu. „Það er ekkert gert nema maður sé í dauðaslitrunum. Ég sé mig í anda að leika mig mikið verr en ég er og ljúga. Ég bara geri það ekki. Er ekki nóg að ég segi að ég þurfi aðstoð strax, er mér ekki trúað?" spyr hún.

Ágústa telur að það sé ársbið eftir mjaðmaliðaaðgerð. „Þetta snýst ekki bara um mig. Hvað með alla hina? Seinnipart árs í fyrra voru fjögur hundruð á listanum sem biðu eftir aðgerð."

Ágústa starfar sem sjúkraliði á Grund en er nú í veikindaleyfi. Hún hefur alltaf unnið mikið og notið þess vel. „Ég byrjaði tíu ára að vigta kartöflur í búð og hveiti í poka. Tíu ára gömul byrjaði ég og það var ansi köld höndin sem mér var rétt þegar ég þurfti aðstoð," segir hún.

Ágústa segir góðhjartaðan mann hafa heyrt af ástandi hennar og safnað milljón svo hún geti farið í aðgerð hjá einkarekinni heilsustofnun, Klíníkinni. Ágústa fer því í aðgerð á þriðjudag en hefur miklar áhyggjur af öðru fólki sem er ekki svo lánsamt.

„Ég er svo reið. Ekki bara fyrir mig heldur líka alla hina. Og sérstaklega eldra fólk. Ég hef áhyggur af því. Þess vegna kem ég í þetta viðtal."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×