Innlent

Vara við mjög slæmu veðri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Veðurstofan spáir mjög slæmu veðri á morgun.
Veðurstofan spáir mjög slæmu veðri á morgun. Vísir/Ernir

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er athygli á mjög slæmu veðri sem spáð er á morgun, föstudaginn 24. febrúar.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að búast megi við að vindhraði nái víða 20 til 28 metrum á sekúndu á sunnan-og vestanverðu landinu eftir hádegi á morgun, ásamt mjög hvössum vindhviðum sem geta náð allt að 40 metrum á sekúndu.

Þessu veðri fylgir talsverð úrkoma, það er fyrst snjókoma og svo slydda eða rigning. Viðbúið er því að skyggni verði víða slæmt og ferðaveður sums staðar mjög slæmt.

„Á Hellisheiði fer að snjóa snemma morguns og má búast við lélegu skyggni þar strax í fyrramálið, en einnig er vakin athygli á því að búist er við að versta veðrið gangi yfir Reykjanesbrautina á milli kl. 14 og 17. Snýst í mun hægari sunnan- og suðvestanátt suðvestantil annað kvöld, með skúrum eða éljum.

Veðrið gengur til norðausturs yfir land og hvessir mikið á Norður og Austurlandi um miðjan dag. Þar má búast við versta veðriðnu annað kvöld, suðaustan 20-28 m/s með vindhviðum jafnvel yfir 40 m/s til fjalla.  Búast má við að veðrið gangi niður norðaustantil eftir miðnætti.

Talsverði eða mikilli rigningu er spáð um tíma suðaustanlands seint á morgun,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira