Íslenski boltinn

FH með fullt hús stiga | KA vann nauman sigur

Kristján Flóki Finnbogason skoraði í dag.
Kristján Flóki Finnbogason skoraði í dag. vísir/eyþór

Íslandsmeistararnir í FH byrja Lengjubikarinn vel en FH vann annan leikinn í röð 2-1 gegn Víking Reykjavík í dag og er því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í riðli 1 í A-deild.

Emil Pálsson kom FH yfir með snyrtilegu skallamarki eftir fyrirgjöf Böðvars Böðvarssonar en FH bætti við öðrum marki skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Kristján Flóki Finnbogason skoraði eftir mistök í vörn Víkinga.

Arnþór Ingi Kristinsson náði að minnka muninn eftir aukaspyrnu Ívars Arnars Jónssonar en korteri fyrir leikslok misstu FH-ingar Emil af velli þegar hann fékk annað gula spjald sitt.

Þrátt fyrir að leika gegn tíu leikmönnum komust leikmenn Víkings ekki lengra og fögnuðu FH-ingar því sigri.

Sjá einnig: Jafnt hjá Breiðablik og Grindavík

Í seinni leik dagsins vann KA 2-1 sigur á Gróttu í Akraneshöllinni en Ásgeir Sigurgeirsson skoraði bæði mörk KA í leiknum. Kom hann Akureyringum yfir á 9. mínútu og bætti við á 47. mínútu.

Seltirningum tókst að minnka muninn á 56. mínútu en þeim tókst ekki að nýta sér að leika manni fleiri síðustu mínúturnar eftir að Aleksandar Trinic var vikið af velli með beint rautt spjald á 87. mínútu.

Grótta er því áfram án stiga í 1 riðli A-deildar en KA er komið á blað með þrjú stig.

Upplýsingar um markaskorara koma frá Fotbolti.net.
Fleiri fréttir

Sjá meira