Lífið

John Oliver snýr aftur: Laumar staðreyndum í auglýsingahlé uppáhaldsþátta Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John Oliver.
John Oliver. Vísir/Getty

Háðfuglinn John Oliver sneri aftur á öldur ljósvakans í gær með þátt sinn Last Week Tonight. Donald Trump og samband Bandaríkjaforseta við sannleikann og staðreyndir var í brennidepli.

„Síðan hann tók við, fyrir um það bil 412 árum, Trump hefur gert okkur ljóst að raunveruleikinn skiptir hann engu máli,“ sagði Oliver en segja má að breski þáttastjórnandinn hafi hreinlega hakkað Donald Trump í sig í þætti gærdagsins.

„Hann hefur ýkt fjölda þeirra sem mættu á innsetningarathöfn hans, hann hefur sagt að umfangsmikið kosningasvindl hafi verið látið viðgangast í forsetakosningunum án þess að færa sönnur á það. Hann laug meira segja um veðrið á innsetningarathöfninni,“ sagði Oliver.

„Svona er staðan. Við búum við forseta sem getur staðið í rigningunni og sagt að það sé sól úti.“

En hvað er til ráða?
Fjölmiðlar ytra hafa greint frá því að Trump horfi reglulega á morgundagskrá kapalssjónvarpsstöðva í Bandaríkjunum. Hafa þeir tekið eftir því að Trump tístir gjarnan um efni þáttanna og í frétt Politico segir að stjórnmálamenn og álitsgjafar keppist nú um að komast í þessa þætti til þess að ná eyrum Bandaríkjaforseta.

Oliver hefur einnig í huga að ná til Trump og í þætti gærdagsins kynnti hann fyrirætlanir sínar um að birta auglýsingar í auglýsingahléi morgunþáttanna sem Trump horfir reglulega á.

Ætlar Oliver sér að lauma mikilvægum upplýsingum og staðreyndum sem forseti Bandaríkjanna þarf að hafa á hreinu í hefðbundnar auglýsingar. Auglýsingarnar verða birtar á MSNBC, CNN og Fox News á morgnana þegar mestar líkur er á því að Trump sé að horfa.

„Þangað til það verður lokað á okkur höldum við áfram að kaupa auglýsingarnar.“

Horfa má á innslagið í heild sinni hér að neðan. Last Week Tonight er á dagskrá Stöðvar 2 á þriðjudagskvöldum, beint á eftir kvöldfréttum.


Tengdar fréttirFleiri fréttir

Sjá meira